Áætlað er að viðræðum Íslands og Evrópusambandsins um landbúnað og byggðaþróun samkvæmt 11. kafla ljúki á öðrum fjórðungi næsta árs en íslensk stjórnvöld hyggjast ekki innleiða neinar breytingar á löggjöf eða stjórnun vegna aðildar að ESB fyrr en aðildin hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í Aðgerðaráætlun um undirbúning Íslands á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar sem lögð hefur verið fram og kynnt Evrópusambandinu.

Þar kemur fram að verulegs átaks er þörf til að koma á fót viðeigandi stjórnskipulagi til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í sameiginlegu landbúnaðarstefnunni þar sem tekið verður tillit til sérstæðra aðstæðna í íslenskum landbúnaði.

Núverandi kerfi beingreiðslna á Íslandi eigi uppruna sinn á níunda áratug síðustu aldar þótt grundvallarbreytingar hafi verið gerðar á síðasta áratug aldarinnar. „Þessi kerfi, svo og þau stjórnunar- og eftirlitskerfi sem notuð voru, eru mjög frábrugðin þeim kerfum sem ESB styðst við nú, þótt tilgangurinn til grundvallar þeim sé svipaður,“ segir í greinargerðinni.

Stór hluti skýrslunnar fjallar um þær aðgerðir sem nauðsynlegar verði til þess að allir innviðir til innleiðingar og  framkvæmdar regluverki ESB
verði til staðar hér á landi við aðildardag svo að íslensk stjórnsýsla verði í stakk búin til að sjá um og taka við fjármagni frá Evrópusambandinu og greiða til íslenskra styrkþega.

Í greinargerðinni er líka að finna tölulegar upplýsingar um þann stuðning sem íslenskir skattgreiðendur veita nú landbúnaðinum og þær beingreiðslur sem landbúnaðurinn nýtur. Fram kemur að íslensk lögbýli séu um 3.500 talsins og að um 2.500 þeirra njóti beingreiðslna úr ríkissjóði sem samtals nema um 11,3 milljörðum króna á ári, sem jafngildir um 4,5 milljónum króna á hvert bú sem tekur við beingreiðslum að meðaltali.

Fram hefur komið að um helmingur af heildartekjum bænda  af framleiðslu mjólkurvara, kindakjöts og þriggja tegunda grænmetis eigi rætur að rekja til beingreiðslna úr ríkissjóði.

Að auki er talið að sá ríkisstyrkur sem fólginn er í tollum og höftum við flutningi erlendra landbúnaðarvara hingað til lands – það er að segja sá stuðningur sem felst í því hversu dýru verði landbúnaðarvörur eru seldar á markaði hér á landi – samsvari um 30% stuðningi til viðbótar.

Nánari upplýsingar um beingreiðslurnar í aðgerðaráætluninni sýna að miðað við núgildandi reglur getur íslensk stjórnsýsla ekki svarað því nákvæmlega hve mörg býli í hverri búgrein njóta beingreiðslna. Þannig er sýnt í töflu að 38-40 grænmetisræktendur taki við 507 milljóna króna beingreiðslum á ári en það jafngildir um 12,6 -13,3 milljóna króna greiðslu á hvert bú að meðaltali.

Þá þiggja 700-800 mjólkurbændur beingreiðslur sem nema samtals 6.102 milljónum króna á ári eða 7,6-8,7 milljónir króna á meðalbúið eftir við hvorn fjöldann er miðað.

Um 1900-2000 bændur njóta beingreiðslna vegna sauðfjárræktar og nema þær greiðslur samtals 4,522 milljónum króna á ári eða um 2,2-2,4 milljónum króna á hvert bú.

Aðgerðaráætlunin er aðgengileg til lestrar í heild á vef utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins, sjá hér.

 

-pg