Pétur J. Eiríkisson birti grein í Morgunblaðinu þann 17. ágúst þar sem hann gerir að umtalsefni skrif Tómasar Inga Olrich um Ísland og Evrópusambandið.

Tómas Ingi hefur gert að umtalsefni að Íslendingar hafi fátt fram að færa innan Evrópusambandsins og eigi því ekkert erindi þangað. Þessu mótmælir Pétur og telur fram ýmis rök fyrir því að óþarft sé að láta heimóttarskap ráða för.

Þess má geta að Tómas Ingi er fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins en Pétur hefur um árabil verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins.

Grein Péturs er birt hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi hans:

Meira úr hugmyndabanka aðildarsinna

Eins og vinur minn, Tómas Ingi Olrich, bendir á í ágætri grein hér í Morgunblaðinu sl. laugardag eru margvísleg og veigamikil rök fyrir því að Ísland eigi að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Hann nefnir þar og hefur eftir aðildarsinnum mikilvægi þess að skipa okkur í sveit með öðrum Evrópuþjóðum, hafa tækifæri til að móta framtíð Evrópu og eiga í nánu sambandi við þær þjóðir sem búa við mest og best lýðræði, mannréttindi, velferð, öryggi og hagsæld.

Þetta eru góð rök sem Tómas bendir okkur á en þó engan veginn tæmandi. Reyndar telur hann okkur hafa fátt jákvætt fram að færa gagnvart öðrum Evrópuþjóðum á meðan við sjálf erum ekki lengra komin með tiltekt heima hjá okkur. Þar er ég Tómasi ósammála og tel okkar reisn meiri og heimóttaskap minni en hann vill vera láta.

Reyndar hefur það verið svo að stærstu framfaraspor okkar höfum við stigið samhliða nánari tengslum við önnur lönd og alþjóðleg samtök. Má þar nefna aðild okkar að varnarsamstarfi vestrænna þjóða, samstarf Norðurlanda, aðild að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu.

En úr því Tómas Ingi fór að leita í hugmyndabanka aðildarsinna hefði hann að ósekju mátt draga fram fleira en þau mikilvægu rök sem að ofan greinir því af nógu er að taka.

Nefnum íslensku krónuna. Sú þjóðsaga er sögð að hún sé bjargvættur alls í kjölfar hrunsins á meðan raunsagan er sú að hrun hennar gerði kreppuna dýpri en annars hefði orðið. Hrun krónunnar hefur engu bjargað, útflutningur, hvorki sjávarútvegs né stóriðju, hefur ekki aukist sem hefði átt að gerast ef kenningin gengi upp. Ferðaiðnaðurinn var löngu farinn að vaxa með tveggja stafa tölum áður en gengið hrundi og bað ekki um gengisfellingu. Hrun krónunnar hefur einungis orðið til að auka á skuldakreppu og skerða lífskjör með því að laun almennings eru færð atvinnurekendum án þess að nokkurt tilefni væri til. Nú blasir við gamla sagan um aukna verðbólgu, háa vexti, höft og láglaunahagkerfi samfara lítilli framleiðni og tortryggni umheimsins. Aðildarsinnar vilja ekki gera þessa fortíð að framtíð og vilja því taka upp nýjan gjaldmiðil sem gæti gerst með aðild að ESB. Einangrunarsinnar mættu gjarnan færa fram aðra lausn ef til er.

Aðildarsinnar vilja losa íslenskan landbúnað úr því kerfi stöðnunar sem nú lamar hann. Þeir sjá betra skjól fyrir hann í styrkjakerfi ESB, sem miðar að því að viðhalda byggðum í sveitum, en í framleiðslustyrkjum í anda Sovétríkjanna sem engu hafa skilað nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum. Hvað vilja einangrunarsinnar gera?

Aðildarsinnar vilja sjá matarverð færast í átt þess sem er í Evrópu. Það er ekki lögmál að verðlag sé hærra á Íslandi en annars staðar. Aðildarsinnar vilja aukið vöruval í verslunum og vilja losna við gamaldags hugsun um einokun og vernd.

Það er heldur ekki lögmál að vöruval eigi að vera minna hér en annars staðar frekar en að íslenskir atvinnuvegir geti ekki keppt. Þeir vilja að neytendur geti pantað sér vörur erlendis frá án þess að opinberir embættismenn þurfi að skipta sér af eða að þörf sé á að greiða margvísleg aukagjöld.

Aðildarsinnar vilja létta kostnaði af íslenskum útflytjendum með því að aflétt verði landamæraeftirliti með íslenskum vörum. Þeir vilja að Íslendingar njóti góðs af fjölmörgum viðskiptasamningum sem Evrópusambandið hefur gert við aðrar þjóðir.

Aðildarsinnar vilja að Íslendingar geti lifað og verið eins og aðrar Evrópuþjóðir, notið sama frjálsræðis en þurfa ekki að vera settir undir höft, takmarkanir og aukin ríkisafskipti sem því miður virðast fara vaxandi í okkar samfélagi.

Þeir vilja ekki undirgangast aukið skrifræði, hvorki í Brussel né Reykjavík, en margt bendir til að það síðara sé orðið minna skilvirkt og þyngra en það fyrra.

Ég er einn þeirra sem telja margt jákvætt við röksemdir aðildarsinna og er orðinn leiður á þjóðsagnaspuna um Evrópusambandið. Það er til dæmis kominn tími til að grafa goðsögnina um að sambandið stefni í ofurríki og aukna miðstýringu. Ekkert aðildarlandanna stefnir að slíku. Ekkert.

Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annaðhvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur.

Aðild að ESB felur vissulega í sér málamiðlun á ýmsum sviðum. Spurningin er hverjar slíkar málamiðlanir eru og hvort þær séu til þess fallnar að auka velfarnað okkar. Um það ætti umræðan að snúast og niðurstaðan ætti að koma í ljós með aðildarsamningi.

Það er rétt hjá Tómasi Inga að það er stórt nafn Hákot og þaðan er vissulega meira útsýni en úr Gröf.