MuffinsNokkrar umræður hafa orðið í kjölfar þess að heilbrigðisyfirvöld á Norðurlandi gerðu athugasemdir við múffukeppni sem konur á Akureyri efndu til í því skyni að afla fjár til góðgerðarmála. Konur voru hvattar til að senda inn sem fjölbreyttast úrval af múffukökum sem síðan átti að selja á basar. Heilbrigðisyfirvöld sendu konunum athugasemd þess efnis að bannað væri að selja almenningi kökur og önnur matvæli sem ekki væru matreidd í vottuðu eldhúsi.

Í framhaldi af þessu komst sá kvittur á kreik að allt væri þetta runnið undan rifjum Evrópusambandsins í Brussel sem hefði bannað slíka sölu. Um þetta barst fyrirspurn til Evrópuvefjarins sem leitaði sér upplýsinga og gaf eftirfarandi svar:

„Um bakstur og matargerð í heimahúsum og sölu á slíkum afurðum gilda engar sérstakar reglur í Evrópusambandinu, nema matvælafyrirtæki sé beinlínis rekið í heimahúsi. Þvert á móti er starfsemi sem hvorki er samfelld né skipulögð, og fer til dæmis fram í tengslum við viðburði eins og þorpshátíðir eða kökubasara kvenfélaga, undanþegin reglum evrópsku matvælalöggjafarinnar, sem gildir á Íslandi vegna EES-samstarfsins. Um bakstur og matargerð í heimahúsum gilda þar af leiðandi landslög í þeim aðildarríkjum sem hafa sett þess konar lög eða reglur.“

Svarið er talsvert lengra og í því er meðal annars að finna tilvitnun í Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem staðfestir að um alíslenskar reglur sé að ræða. Lokaorðin í svarinu á Evrópuvefnum eru þessi:

„Á heimasíðu Matvælastofnunar kemur fram að skilyrði fyrir leyfisveitingum í matvælaframleiðslu séu í vinnslu og verður því að telja að óvissa ríki um framtíð íslenskra kökubasara á meðan svo er. En það mál er sem sagt algerlega á forræði íslenska ríkisins.“

Sjá svar á Evrópuvefnum: http://evropuvefur.is/svar.php?id=60406