„Enginn þversögn er að hafa mætur á íslenskum sveitum og vera Evrópusinni,“ segir Hannes Pétursson skáld í hressilegu viðtali við Jón Kalman Stefánsson í helgarútgáfu Fréttatímans fyrir 29.-31. október. Hannes ræðir þar það sem hann kallar „blágrænu þverpólitíkina gegn aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu“, sem honum þykir á köflum hreint óborganlega skemmtileg og nefnir ýmis dæmi þar um:

„Þannig er að Bjarni Harðarson, járngrimmur heimssýnarmaður og nú nýskipaður upplýsingafulltrúi Jóns Bjarnasonar, sagði í blaðagrein fyrir fáum mánuðum að aðid Íslands að Evrópusambandinu gæti aldrei gengið, þótt ekki væri fyrir annað en „torleiði hingað og fjarlægðir“, eins og hann tók til orða. Þegar ég hafði þerrað hláturstárin úr augunum rifjuðust upp fyrir mér ýmis dæmi þess hve fjarlægðir eru í raun og veru huglægar. … Nú á tímum hefur margvísleg tækni haft í för með sé að allur heimurinn þykir líkjast einu samvöxnu byggðarlagi, talað er um heimsþorpið. Það hugtak hefur aldrei ratað til Bjarna Harðarsonar upplýsingafulltrúa. Hann á eftir að tilkynna okkur margt um óyfirstíganlegar fjarlægðir og torleiði milli höfuðborga heimsins.“

Þegar Hannes er spurður hvort hann óttist ekki að Ísland glati sjálfstæðinu og verði gleypt í einum bita af Brussel svarar hann: „Evrópusambandið er bandalag sjálfstæðra lýðræðisríkja sem deila fullveldi sínu á tilteknum sviðum. Hér á landi þvæla andstæðingar þess seint og snemma um afsal fullveldis og sjálfstæðis. Hefur nokkurt ríki sambandsins glatað sjálfstæðinu eða fyrirgert með öllu fullveldinu? Ekki eitt einasta. En bullustrokkarnir munu ekki þagna fyrr en í fulla hnefana, trúðu mér.“