Á morgun, föstudaginn 16. nóvember, milli klukkan 12 og 13.15 í Odda, stofu 201 (HÍ) fer fram þriðji fundur í fundaröð Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands Evrópusamræður veturinn 2012-13 og er umræðuefnið að þessu sinni byggðastefna ESB og Ísland.

Hver er stefna ESB í byggðamálum og hvaða áhrif kann ESB aðild að hafa á byggðamál á Íslandi, bæði í dreifbýli og á höfuðborgarsvæðinu? Ísland er strjálbýlasta land Evrópu, yst í álfunni og eina evrópska ríkið sem er að öllu leyti innan norðurskautssvæðisins. Getur þessi sérstaða okkar skipt máli í samningaviðræðunum við ESB? Hver hafa áhrifin verið í Finnlandi og Skotlandi? Hefur t.d. eitthvað breyst í atvinnu- og menntamálum?

Byggðastefna ESB
John Bachtler, prófessor í Evrópufræðum og forstöðumaður European Policies Research Centre við Strathclyde háskóla í Bretlandi, heldur erindi um byggðastefnu ESB og ber saman reynslu nokkurra aðildarríkja með sérstaka áherslu á Skotland. 

Reynsla Finnlands af byggðastefnu ESB
Kari Aalto, forstöðumaður Evrópuskrifstofu Norður-Finnlands, segir frá reynslu Finnlands í byggðamálum eftir aðild að ESB. Finnland, líkt og Ísland, er strjálbýlt land sem býr við erfið veðurskilyrði og erfiðar samgöngur. 

Anna Margrét Guðjónsdóttir, ráðgjafi í Evrópumálum, ræðir byggðamál frá íslensku sjónarhorni og leiðir pallborðsumræðurnar í lokin. 

Fundurinn fer fram á ensku og allir eru velkomnir.