Í grein dagsins fjallar Valborg Warén, stjórnmálafræðingur, um byggðastefnu Evrópusambandsins, hvernig hún virkar og hvernig hún kæmi sér fyrir íslenskar byggðir, gangi Ísland í Evrópusambandið. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Umræðan um Evrópusambandið hefur að miklu leyti snúist um áhrif inngöngu á landbúnaðinn, sjávarútveginn og stöðu fullveldis hér á landi. Hinsvegar hefur takmarkað verið fjallað um byggðastefnu sambandsins en ólíkt öðrum stefnum ESB, ríkir töluverð sátt um framkvæmd og skipulag byggðastefnuninnar.

Byggðastefnan var sett á laggirnar þegar aðildarríkin sáu fram á það að lögmál hins frjálsa markaðar myndu gera lítið annað en að breikka hið efnahagslega bil milli ESB ríkjanna og þannig vinna gegn grunngildum sambandsins. ESB ríkin hafa hægt og rólega í gegnum árin, verið að leggja meiri áherslu á málefni byggðarlaga og hafa skuldbundið sig  til þess að vinna að efnahagslegum stöðugleika og þróun á þeim svæðum sem þess þurfa. Evrópusambandið hefur einnig sett á fót Héraðanefnd en þar eiga sveitarfélög aðildaríkjanna sína fulltrúa sem vinna að allri stefnumótun er varðar sveitarstjórnarstigið og sem standa vörð um hagsmuni byggðarlagana gagnvart Evrópusambandinu.

Til þess að lýsa byggðastefna Evrópusambandsins í örstuttu máli þá er unnið eftir 7 ára tímaáætlun þar sem sett eru fram markmið sem eiga að nást á þessum 7 árum. Núverandi stefna tók gildi árið 2007 og gildir út 2013 og eru ráðstöfunartekjur fyrir þetta tímabil 347 milljarðir evra en samkvæmt opinberum tölum eru það um 35% af heildarfjárlögum Evrópusambandsins. Þessi upphæð deilist niður á þrjá mismunandi sjóði sem styrkja og styðja við mismunandi verkefni innan aðildarríkja ESB.

Byggðastefna Evrópusambandsins vinnur eftir þremur mismunandi markmiðum en fyrir núverandi tímabil er unnið að því að styrkja sérstaklega þau ríki sem hafa verga landsframleiðslu undir 75% af meðaltali ESB ríkja, auka á samkeppnishæfni ríkja og svæða innan þeirra, ásamt því að stuðla að atvinnusköpun. Síðasta markmiðið er að ýta undir svæðasamstarf, þá sérstaklega að lausn sameiginlegra vandamála og samvinnu á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Byggðastefnan gefur sveitarfélögum og byggðalögum aukið sjálfstæði en nálægðarregla sambandsins ýtir undir það að sveitarfélög myndu í auknu mæli taka við verkefnum sem ríkisvaldið sæi um, svo sem atvinnumál í sínum landshluta og svæðisþróun. Héraðanefndin gefur sveitarfélögum tækifæri til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi, auka tengslanet sitt og einnig þekkingu á regluverki ESB.

Sveitarfélög myndu fá þátttökurétt í allri stefnumótun og í ákvörðunum sem er ólíkt skemmtilegra en núverandi staða, þar sem sveitarfélög taka við fullbúnum reglugerðum án þess að koma að stefnumótun þeirra, líkt og staðan er núna vegna EES samningsins. Með inngöngu í Evrópusambandið opnast leiðir fyrir sveitarfélög að byggðasjóðum ESB. Með fjárframlögum úr þeim og mótframlagi frá sínu ríki, hafa sveitarfélög getað ýtt undir atvinnusköpun, bætt samgöngu- og samskiptakerfi innan síns svæðis og þannig aukið samkeppnishæfni sína.

Byggðastefna Evrópusambandsins hefur komið aðildarríkjum sínum til góðs og stuðlað að uppbyggingu á svæðum sem mörg hver hafa dregist aftur úr í efnahags-og félagslegum skilningi. Einnig hefur stefnan nýst til þess að fá stuðning við nýsköpun og frumkvöðlaverkefnum og því ættu sveitarfélög á Íslandi að njóta góðs af öllum þeim áætlunum og verkefnum sem eru í gangi innan byggðastefnu ESB.

Ég er ekki að segja að byggðastefna ESB og sjóðir hennar munu leysa  þau vandamál sem sveitarfélög hér á landi standa frammi fyrir en það er ekki hægt að neita því að þeir munu auðvelda róður sveitarfélaga í fjármögnun framkvæmda og verkefna. Íslenska þjóðin ætti því ekki að þurfa að óttast neikvæð áhrif á byggðamál ef kæmi til inngöngu í Evrópusambandið, frekar hið gagnstæða.