David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins leggst alfarið gegn því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu.

Hópur Íhaldsmanna hefur safnað eitt hundrað þúsund undirskriftum þar sem neðri málstofa breska þingsins er hvött til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild. Þingið mun greiða atkvæði 27. október um tillöguna.

Búist er við að tillagan verði felld vegna andstöðu Camerons og annara forystumanna Íhaldsflokksins en um 50 þingmenn flokksins eru taldir styðja tillöguna sem gerir ráð fyrir atkvæðagreiðslu í maí 2013.

David Cameron sagði engan vafa leika á að Bretar væru fylgjandi aðild að ESB á flokksþingi Íhaldsmanna nú í haust: „Langflestir Bretar vilja ekki segja skilið við Evrópusambandið heldur beita sér fyrir umbótum innan Evrópusambandsins til að tryggja betur jafnvægi á milli Bretlands og Evrópu.“ Cameron benti einnig á að 40% viðskipta Bretlands væru við Evrusvæðið og að skakkaföll evrunnar væru  „mjög slæm tíðndi“ fyrir Bretland.