Algengt viðkvæði stjórnmálamanna sem verja krónuna er að benda á lönd innan ESB og segja að þar séu mikil vandamál. Þau eiga við efnahagsvandamál að etja; okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins.

Það er óábyrgt hjá stjórnmálamönnum að bera okkur saman við lönd án þess að taka tillit til þess að þau eru með verðbólgu sem er innan við 4 – 5% og vexti á svipuðu stigi. Það eru lönd þar sem fólk er ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem komandi ríkisstjórn þarf að glíma við.

Ísland er fullkomlega rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar. Rekstur reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi verður stöðugur og leiðir til jafns vaxtar og skapar störf. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar. Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Hér vísa ég einnig til ummæla forvarsmanna atvinnulífsins og hagdeilda aðila vinnumarkaðs.

Hvergi á Norðurlöndunum eða í vestanverðri Evrópu hefur kaupmáttur fallið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar. Kaupmáttur hefur fallið um á annan tug prósenta síðustu 10 mánuði.

Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill gefur af sér enn hærra verðlag. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna.

25% af launum Íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á Norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Hvergi hefur eignatap einstaklinga orðið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar.

Stór hluti af verðfalli eigna lífeyrissjóða og sjóða þar sem fólk geymir sparifé sitt er vegna þessa kerfisfalls krónunnar og þessi hluti stefnir í að verða langstærsti þátturinn í verðfallinu.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar.

Ef fjölskylda kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku, er staðan sú að eftir 20 ár hefur íslenska fjölskyldan greitt sem samsvarar andvirði tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Krónan heldur Íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum.

Guðmundur Gunnarsson