Í grein dagsins fjallar Gísli Baldvinsson um hvernig Ísland sé hluti af Evrópu.

Hið sjálfsagða

Daglega erum við minnt á þá staðreynd að Ísland er hluti af Evrópu. Við kaupum flestar vörur af evrópska efnahagssvæðinu, við sækjum menntun til Evrópu, sækjum um styrki til ýmissa mennta- og vísindaverkefna og lengi má telja. Allt viðskipta- og efnahagslíf þjóðarinnar er svo nátengt meginlandi Evrópu, að fljótlega hefði það áhrif á gengi krónunnar ef þar yrði neikvæð breyting.

Sjálfstæði Íslands

Sjálfstæði er ekki hið sjálfsagða. Engu mátti muna að Ísland missti hið efnahagslega sjálfstæði sitt eftir leik útrásarvíkinganna með efnahagsfjöreggið. Vonandi þarf ekki að minna fólk á þá staðreynd að jafnvel forseti vor tók þátt í þeim leik. Af þeim sökum er það stórundarlegt að hann höggberji helstu vini okkar í Evrópu sem komu okkur til hjálpar, og talar um vinabrigð sömu þjóða. Þá er alloft talað um það að við munum framselja sjálfstæði okkar í öllum málum til Brussel. Stóryrðasmiðir staðhæfa jafnvel að ekki sé hægt að samþykkja íslensk fjárlög án samþykkis frá sömu borg.

Allt þetta er rangt eins og þeir sem kynnt hafa sér málin vita. En skoðum af heiðarleika hvað breytist:

Gerist Ísland aðili að ESB mun það líkt og önnur aðildarríki ótvírætt þurfa að framselja vissa þætti ríkisvalds til stofnana ESB. Á móti kemur hins vegar að fulltrúar Íslands fengju þá aðild að þeim sömu stofnunum ESB sem fara með þær valdheimildir fyrir hönd allra aðildarríkja, og kæmi þar með að setningu reglna fyrir allt sambandið. Vísast væri þá nær sanni að segja að fullveldi yrði þannig deilt með öðrum ríkjum, en því ekki glatað.

Umhverfi og náttúruvernd

Margir sem eru umhverfissinnaðir í hjarta sínu eru Vinstri grænir. Þeir eru í eðli sínu einnig alþjóðasinnar. Flestir slíkir grænir flokkar í Evrópu eru einmitt af þessum sökum Evrópusinnar. En er allt fellt og slétt í þessum efnum á Íslandi? Getur verið að við gætum sótt ráð og hugmyndir hvað varðar náttúruna til Evrópu? Hver er staðan? Staðan er þessi:

Kaflinn um umhverfismál fellur undir EES-samninginn og hefur stór hluti regluverks Evrópusambandsins á sviðinu þegar verið innleiddur á grundvelli EES-samningsins. Þó stendur náttúruvernd alveg utan EES samningsins, sem er veigamikill þáttur umhverfislöggjafar Evrópusambandsins. Á meðal þeirra atriða sem rædd voru, má nefna vatnsvernd, hreinsun skólps, vöktun skóga, veiðar á villtum fuglum, náttúruverndarsvæði, refa- sel- og hvalveiðar, verndun villtra dýra og plantna og losunarheimildir.(Þetta er tekið úr rýnisvinnu vegna ESB viðræðna)

Af þessu sést að með inngöngu þyrfti Ísland jafnvel að taka til hendinni og gera margt þarft svo sem í náttúruvernd. Það mætti ímynda sér að til náttúruverndar fengjust styrkir til dæmis til þess verkefnis að moka ofan í marga mýrarskurði sem eru einungis til óþurftar. 

Hin ríka lýðræðishefð

Hvað hafði svo stærsti stjórnmálaflokkurinn að segja um málið 2008?

Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar.

“Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ítrustu hagsmuna hefur verið gætt.”

Þetta skrifa tveir efnilegir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðið 13. desember 2008, þeir Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson.

Er ekki alveg hægt að taka undir þessi orð?

Hvað hefur breyst svo mikið að nú telja sömu menn og sami flokkur að brýna nauðsyn að draga umsóknina til baka?
Hefur einhver séð raunhæf rök um slíkt?
Ég held ekki.

Fyrr en síðar munu svo þeir kostir verða kynntir alþjóð, sem koma út úr aðildarviðræðum Íslands og ESB. Því bið ég allt velupplýst fólk að kynnar sér kostina í “anda ríkrar lýðræðishefðar”.