Ólund Morgunblaðsins vegna umsóknar Íslands að Evrópusambandinu vex stöðugt. Enginn er hissa á því sem sagt er um þau mál í þeim hlutum blaðsins þar sem skrifað er nafnlaust í leiðurum, Staksteinum og Reykjavíkurbréfi. Ekkert er við það að athuga að ritstjórarnir, annar eða báðir, sjái rautt þegar aðild Íslands ber á góma. Hitt er verra þegar fréttaflutningur blaðsins er farinn að draga dám af skoðunum ritstjóranna. Þeir virðast hafa verið fljótir að gleyma hátíðlegum loforðum um annað í bréfi til stórs hluta áskrifenda blaðsins sem sagði upp áskrift að blaðinu þegar þeir tóku við blaðinu og óskuðu eftir að fá að sanna sig með hlutlausum fréttaflutningi.

Ein fjöður verður að …
Lítið dæmi um þetta er frétt blaðsins og síðan útleggingar í leiðara þann 21. maí af samantekt nokkurri sem gerð var fyrir nokkra þingmenn í Evrópuþinginu og fjallar m.a. um umsókn Íslands og íslensk málefni.

Í frétt blaðsins er fullyrt að um skýrslu framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins sé að ræða. Þetta eru eru staðlausir stafir með öllu og hreinn uppspuni. Umrætt plagg sem undirritaður hefur lesið frá upphafi til enda er innanhússplagg í Evrópuþinginu. Það er samið af starfsmanni skrifstofu innan Evrópuþingsins sem heitir upp á ensku: Directorate-general for external policies of the Union, policy department.

Skýrslan, eða réttara sagt samantektin (Country briefing), er sett saman að beiðni þingmanna á Evrópuþinginu sem eru í svokölluðu stækkunar- og EES teymi (European Parliament’s Enlargement and European Economic Area Unit). Samantektin var gefin út 17. maí.

Hlutlaus samantekt
Plaggið er samantekt á staðreyndum um Ísland, samskiptum Íslands og ESB, staðreyndum um aðildarumsóknina og afstöðu stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka og áhugamannasamtaka. Frá þessu öllu er sagt með hlutlausum hætti og stærstur hluti samantektarinnar er útdráttur úr greinargerð utanríkismálanefndar Alþingis og vegvísi um aðildarviðræðurnar sem lögð var til grundvallar aðildarumsókn Íslands.

Í samantektinni eru ekki viðraðar neinar skoðanir eða tekin afstaða af hálfu skýrsluhöfundar. Einungis er vísað til viðhorfa og skoðana á Íslandi. Í samantektinni er einnig vísað til ítarlegrar umsagnar framkvæmdastjórnar ESB um umsókn Íslands þar sem mælt er með að taka upp viðræður við Ísland á grundvelli aðildarumsóknar frá 16. júlí, en umsögnin var send Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB þann 24. febrúar á þessu ári og er öllum aðgengileg og hefur verið fjallað ítarlega um efni hennar í fjölmiðlum.

Samantektin fyrir Evrópuþingmennina er vel unnin. Rekur vel mismunandi sjónarmið á Íslandi til aðildar að ESB og gefur stutt yfirlit um stöðuna í stjórnmálum og efnahagsmálum Íslands.

Af ávöxtunum …
Ef umrædd frétt Morgunblaðsins og þær útleggingar sem ritstjórar byggja á henni eru dæmi um vinnubrögð blaðsins þegar fjallað er um aðild Íslands að ESB þar á bæ er ekki von á góðu. Þá verður framvegis að setja fyrirvara við allt sem stendur í því ágæta blaði um þessi mál.

Jón Steindór Valdimarsson.