Ný reglugerð Evrópusambandsins heimilar einstökum aðildarríkjum að ákvarða einhliða hámarksafla í ákveðnum stofnum sem eingögnu viðkomandi ríki nýtir, í stað þess að tekin sé sameiginleg ákvörðun í ráðherraráðinu eins og tíðkast hefur fram að þessu. Ákvörðunin skal þó vera í samræmi við meginreglu sjávarútvegsstefnunnar um sjálfbæra nýtingu og einnig með þeim formerkjum að að nýting stofnsins skili sem mestum ávinningi. Meirihluti afla á íslandsmiðum er úr fiskistofnum sem Íslendingar nýta einir.

 

 

Aðalsteinn Leifsson, stjórnmálafræðingur og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir reglugerðina styrkja stöðu Íslands í sjávarútvegsmálum. „Samkvæmt reglugerðinni hafa einstaka aðildarríki heimild til að ákvarða einhliða hámarksafla í ákveðnum stofnum sem einungis viðkomandi ríki nýtir, svo lengi sem meginsjónarmið um skynsamlega nýtingu eru viðhöfð,“ segir Aðalsteinn. Meirihluti afla á Íslandsmiðum er úr fiskistofnum sem Íslendingar nýta einir, en ekki sameiginlega með nágrannaríkjum.

Aðalsteinn bætir því við að enginn ágreiningur sé um að samkvæmt reglum ESB eigi ekkert annað ríki tilkall til veiðiréttar á botnfiski umhverfis Ísland á grundvelli sögulegrar veiðireynslu. „Þessi reglugerð bætir um betur og gefur Íslandi að minnsta kosti tækifæri til að setja fram og rökstyðja þá kröfu að ákvörðun um hámarksafla í botnfiski í íslenskri lögsögu verði eftir sem áður í höndum íslenskra stjórnvalda, enda verði sóknin í fiskistofnana áfram ábyrg og skili sem mestum efnahagslegum ávinningi.“

Byggt á frétt á visir.is