Einar Páll Svavarsson, stjórnmálafræðingur, fjallar í grein dagsins um fullveldismál Íslands og EES- samninginn og Evrópusambandið, norskuskýrsluna um EES sem kom út fyrir stuttu og forsetann og hans afskipti af Evrópumálunum. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ein af þeim röksemdum sem andstæðingar Evrópusambandsins tefla gjarnan fram gegn aðild er sú staðreynd að við inngöngu þurfa Íslendingar að afsala hluta fullveldisins til yfirþjóðlegra stofnana. Allir sem vilja skoða eðli aðildar með báðum augum, hvort sem þeir eru fræðimenn, stjórnmálamenn eða almennir borgarar geta tæplega fundið leið framhjá þessari staðreynd. Fullveldisafsal í einhverri mynd, með einhverjum hætti og upp að einhverju marki hefur verið staðreynd allt frá stofnun Kola- og stálbandalagsins. Takmarkað afsal fullveldis hefur síðan verið eins og rauður þráður gegnum sögu og þróun sambandsins.
Flestir borgarar evrópskra þjóðríkja eru eðlilega ákaflega viðkæmir fyrir slíku afsali á fullveldi. Þar erum við Íslendingar engin undantekning enda stutt síðan við öðluðumst sjálfstæði og ekki svo ýkja langt síðan við gátum ofið fullveldistilfinninguna inn í þjóðarstoltið með fullri reisn. Þetta takmarkaða afsal fullveldis hefur hins vegar þótt ásættanlegt hjá flestum ríkjum Evrópu vegna þeirra kosta sem samstarfið hefur skilað. Kosta sem eru mældir í færri stríðsátökum, öflugri viðskiptum og betra mannlífi hins almenna borgara, nefnilega friði og hagsæld.

Mesta fullveldisafsal eftir að við öðluðumst sjálfstæði

Í janúar árið 1994 tók EES-samningurinn gildi hér á landi.  Eins og margir vita hefur samningurinn fært okkur Íslendingum margs konar ávinning og ýtt undir framfarir.  Samningurinn fól hins vegar í sér skuldbindingu um að taka við ýmiss konar tilskipunum, reglum og lögum sem Evrópusambandið gefur út.  Þetta er „reglugerðafarganið“ sem andstæðingar Evrópusambandsaðildar eru stöðugt að minnast á. Með EES- samningnum sem Viðeyjarstjórnin, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forystu Davíðs Oddssonar, ýtti úr vör, keyrði í gegnum umræðuferlið og samþykkti á Alþingi, afsöluðu Íslendingar hluta af fullveldi sínu til Evrópusambandsins. Þetta hefur verið borðleggjandi frá upphafi og nýlega staðfest með óyggjandi hætti í skýrslu norskra sérfræðinga sem kom út í Noregi í byrjun árs. Aldrei hafa valdhafar á Íslandi afsalað hluta af fullveldi þjóðríkisins með jafn afgerandi hætti og Viðeyjastjórnin gerði á Alþingi í janúar 1993.

Það voru 33 einstaklingar sem tóku þessa ákvörðun.  Þeir töldu greinilega öll lýðræðisleg skilyrði uppfyllt þegar stjórnin kláraði ferlið á Alþingi.  Ekki var talið nauðsynlegt að þjóðin fengi að taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeir afsöluðu hluta af fullveldinu til Evrópusambandsins.  En sjálfsagt hefur þeim fundist eins og mörgum öðrum þjóðum, og forystumönnum annarra evrópskra þjóða, ávinningurinn af fullveldisafsalinu svo mikill að hann réttlætti slíkt takmarkað fullveldisafsal.

Meira eða minna fullveldisafsal?

Það sem var athyglisvert við skýrslu norsku sérfæðinganna sem lögðu ítarlegt mat á 18 ára samstarf Noregs við Evrópusambandið gegnum EES-samninginn var sú niðurstaða að með inngöngu í Evrópusambandið gæti Noregur endurheimt hluta af fullveldinu til baka.  Niðurstaða þeirra var nefnilega sú að EES-samningurinn væri meira fullveldisafsal en full aðild. Nú ber að hafa í huga að Norðmenn voru ekkert að kasta til hendinni í þessari rannsókn.  Margir færir sérfræðingar á mörgum fræðasviðum komu að vinnu við skýrsluna sem var lengi í vinnslu.  Líklega dettur fáum í hug að hér hafi skort bolmagn eða bjargir til að gera skýrsluna sem besta úr garði.

Þessi niðurstaða norsku sérfræðinganna er afgerandi þrátt fyrir að umgengni þeirra við EES-samninginn sé nokkuð öðruvísi en umgengni okkar Íslendinga við sama samning.  Norðmenn reka nefnilega gríðarlega umfangsmikla hagsmunagæslu og lobbyisma í Brussel.  Þeir hafa fjölmarga sérfræðinga á sínum snærum sem stöðugt vinna að hagsmunamálum Noregs hjá Evrópusambandinu. Með þeim hætti reyna þeir að hafa áhrif á framgang mála meðan þau eru í vinnslu. Mál sem síðar kunna að rata inn í norska löggjöf gegnum EES-samninginn. Við Íslendingar tökum þetta hins vegar nánast undantekningalaust inn í okkar lög og reglur eins og það kemur fullskapað frá Evrópusambandinu.  Svo rammt kveður að tregðu okkar við að hafa áhrif á málin áður en þau klárast hjá sambandinu að þeir örfáu embættismenn sem reyna að fylgjast með eru sakaðir af ráðamönnum landsins um að vera aðallega að skemmta sér á dagpeningum í Brussel.  Það má því til sanns vegar færa að fullveldisafsal okkar sé mun meira og varanlegra en fullveldisafsal Norðmanna.

Lýðræðið er ferill en ekki átakapunktur sem þarf foringjaúrskurð 

Í dag er í gangi lýðræðislegur ferill sem tekur nokkur ár, eins og allar yfirgripsmiklar ákvarðanir sem fjalla um fullveldi, stjórnskipan og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.  Þetta eru aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið.  Ferli sem var kosningamál fyrir síðustu Alþingiskosningar og tók á sig formlega mynd þegar Alþingi ákvað að hefja aðildarviðræðurnar.  Ein birtingarmynd ferilsins er þessi grein og margar aðrar sem fylgjendur og andstæðingar aðildar skrifa. Aðrar birtingarmyndir eru fundir, fyrirlestrar, samtöl, umfjöllun, blogg, vefsíður, félög og aðrar þær leiðir sem nútímasamfélagið býður uppá til að leiða mál til lykta með lýðræðislegum hætti.  Þó að ég sé mjög fylgjandi aðild hef ég mikinn áhuga áð að heyra málflutning þeirra sem eru andvígir aðild.  Ég á bæði góða vini og ættingja sem eru ósammála mér um Evrópusambandið.  Fólk sem ég met mikils og vil hlusta á.  Á næstu vikum og mánuðum eigum við eftir að spjalla saman og deila um aðild.

Þegar aðildarviðræðum lýkur þurfum við að taka afstöðu til samningsins og halda samtölum okkar og röksemdarfærslum áfram.  Undirbúa eðlilegan farveg fyrir lýðræðisleg átök um samninginn.  Í þessum skilningi er engin óvissa eða átök um fullveldið, engin óvissa um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi né heldur óvissa um stjórnkerfið almennt.  Við erum miklu frekar að ganga í gegnum áhugavert  lýðræðislegt umræðuferli þar sem fjölmörgum aðferðum er beitt til að koma sjónarmiðum og röksemdum á framfæri.  Við getum sem almennir borgarar tekið virkan þátt í að útskýra afstöðu okkar til mikilvægra pólitískra þátta og þar með unnið lýðræðinu gagn.

Sá fáheyrði atburður hefur því miður gerst hér á landi að sitjandi forseti hefur skilgreint framboð sitt til áframhaldandi setu á pólitískum forsendum. Þetta útspil jafnast á við að sitjandi forseti á sjötta eða sjöunda áratugnum hefði skilgreint áframhaldandi framboð sitt sérstaklega sem framboð í nafni Samtaka herstöðvarandstæðinga eða samtakanna Varið land.  En á þeim tíma var herstöðin á Miðnesheiði eitt af helstu átakamálum þjóðarinnar.  Framboð Ólafs Ragnars hefur m.a. það markmið að koma í veg fyrir aðild að Evrópusambandinu sem og að koma í veg fyrir eðlilega lýðræðislega umræðu um aðild.  Í mínum huga felur þetta í sér að Ólafur Ragnar vilji sem forseti viðhalda meira fullveldisafsali en við þurfum nema að hann ætli einnig með framboði sínu að berjast fyrir uppsögn EES-samningsins.  Ætli þannig að berjast fyrir því að við endurheimtum fullveldi í skilningi 18. aldar.

En þessu er ég t.d. algerlega ósammála og tel þvert á móti að með því að taka þátt í smíði löggjafar innan Evrópusambandsins, með því að eiga fulltrúa í stofnunum Evrópusambandsins og hafa rödd innan stofnana Evrópusambandsins séum við að endurheimta hluta af fullveldinu til baka og búa þannig við nútímalega skilgreiningu á fullveldi í alþjóðlegu umhverfi.   Til þess að ræða þessi mál sem þjóð höfum við þann feril sem er í gangi og þarf að klára. Að blanda þessu saman við forsetakosningarnar er bæði smekkleysa og  vanvirðing við þá lýðræðislegu ferla sem eru í gangi og eru til staðar. Að stilla sjálfum sér upp sem einhvers konar hr. Salómon í þessu máli sem felli foringjaúrskurð eftir að hann verði aftur forseti  sem hverfi síðan á braut á hvítum vængjum sátta þegar öll átök eru útkljáð er bæði barnalegt og lýsir litlum skilning á nútímalýðræði.  Allt útlit er fyrir að málflutningur Ólafs Ragnars sé að verða persónulegur harmleikur þar sem hann sjálfur er fórnarlamb eigin gagnrýnislausu metorðagirndar og sjálfsupphafningar og  svo langt leiddur í eigin eintali, að hann metur stöðu sína upphátt  í dag með tilvísun í þjónustu við allt mannkynið?

Metum stöðu fullveldisins og höldum umræðunni utan við forsetakosningar 

Á Íslandi eigum við kappnóg af almennum borgurum, öflugum fræðimönnum, áhugaverðum leiðtogum í atvinnulífinu, kraftmiklum stjórnmálamönnum, skynsömum embættismönnum, öflugu fjölmiðlafólki og fjöldanum öllum af fólki sem er að taka þátt í því lýðræðislega ferli sem aðildarviðræðurnar eru.  Fólk sem bæði er fylgjandi aðild og fólk sem er á móti aðild.  Fólk sem hefur getu, forsendur og burði til að taka afstöðu út frá sínum eigin hagsmunum, þekkingu og sínu eigin lífi.  Fólk sem ætlar að meta bæði fullveldisspurninguna og afstöðuna til inngöngu út frá þeim rökum sem þetta lýðræðislega ferli kallar fram.  Í lokin ætlum við að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki aðeins á Alþingi eins og gert var árið 1993. Eftir þá atkvæðagreiðslu lýkur málinu með niðurstöðu sem allir verða að sætta sig við.

Þetta getur þjóðin gert, þú og ég og við öll.  Við erum þjóðin og getum alveg hjálparlaust klárað lýðræðislega ferlið sem aðildarviðræðurnar eru og þurfum hvorki hjálp frá Ólafi Ragnar Grímssyni forsetaframbjóðanda, sem í dag virðist hafa mjög brenglaðar hugmyndir um skilgreiningu á hugtakinu þjóð, né þeim ráðamönnum sem ganga með furðulegar hugmyndir um að aftur þurfi að greiða atkvæði um upphaf aðildarviðræðna.  Ekki heldur frá þeim þingmönnum sem af minnsta tilefni telja ástæðu til að slíta viðræðunum, sem væri hreint glapræði með tilliti til fullveldisspurningarinnar. Allir þessir ráðamenn þurfa bráðum að leyfa þjóðinni að klára lýðræðisferlið og ljúka því með réttum hætti eins og að er stefnt, í þjóðaratkvæðagreiðslu um samning sem kemur út úr aðildarviðræðunum.