Enga merkimiða takk

Staðsetning
Iðnó
Vonarstræti 3, 101 Reykjavík. ( Sjá kort )
september 10, 2011
kl. 00:00:00 til 23:59:00.


Laugardaginn 10. september stóð Já Ísland fyrir opnum umræðufundi um Evrópusambandið og umhverfismálin. Einn af frummælendum fundarins var Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður. Erindi Páls vakti mikla athygli meðal fundargesta og þótti stórskemmtilegt. Í erindi sínu fjallar Páll jafnt um óhóflega notkun merkimiða meðal andstæðinga aðildar jafnt og stuðningsmanna, sem og óttann við það að innganga Íslands í Evrópusambandið muni gera út um allt sem við teljum sér íslenskt og einstakt.

Hér fyrir neðan má horfa á upptöku af þessu skemmtilega erindi Páls Ásgeirs – eða lesa erindið hér enn neðar í fréttinni.

Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður from Sterkara Ísland on Vimeo.

Sennilega væri rétt að hefja þennan ræðustúf á því að skýra út fyrirsögn hans.  Hvað á ég við með fyrirsögninni: Enga merkimiða takk.

Umræðan um það hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið hefur einkennst af óhóflegri notkun merkimiða. Jafnvel svo að segja mætti að þeir væru eitt helsta vopn manna í þeirri orðræðu sem fram fer. Þegar einhver sér jákvæða fleti eða kosti góða við inngöngu reyna andstæðingar sem ákafast að þekja hann í merkimiðum sem á standa orð eins og: senditík frá Brussel, landráðamaður eða landsölumaður. Hið sama gerist oft þegar einhver fullyrðir að algerlega ómögulegt sé að sækjast eftir þeirri sömu inngöngu. Þá standa á merkimiðunum orð eins og: afturhaldsseggur, þröngsýnn eyjarskeggi, torfkofabúi eða músarholusjónarmið

Þetta er fært í tal hér því þótt ég standi í ræðustól hér undir merkjum samtaka sem kalla sig Já Ísland þá er ekki víst að enn liggi fyrir hvorn veg mitt atkvæði fellur í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég vonandi fæ að taka þátt í um þetta merka mál. Þess vegna frábið ég mér alla merkimiða vegna þess sem ég hyggst segja hér í dag.

Margir hafa orðið til þess að orða ótta sinn við það að þegar og ef Íslendingar fá inngöngu í Evrópusambandið sé hætta á að ýmislegt af því sem við teljum sér íslenskt og einstakt í sinni röð muni glatast í iðukasti menningarstrauma og fjölbreyttrar samkeppni. Þetta er umhugsunarefni því eitt af því sem sameinar okkur öll er líklega löngun og vilji til þess að varðveita allt það sem gerir okkur að Íslendingum.  Lítum á nokkur dæmi um hvernig okkur einum og óstuddum hefur tekist nákvæmlega þetta fjarri heimsins glaumi við ysta haf.

Danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask dvaldi á Íslandi 1813-1815 og tók þátt í stofnun Hins íslenska bókmenntafélags árið 1816 og var formaður þess í fyrstu. Hann átti mikinn þátt í mótun þeirrar málhreinsunarstefnu sem Fjölnismenn fylgdu síðan af miklum krafti. Sú endurreisn íslenskrar tungu sem í þeirri baráttu varð einn af hornsteinum sjálfstæðisbaráttu íslenskra átti án efa ríkan þátt í að bjarga íslenskri tungu frá hnignun og hugsanlegum útdauða. Rask átti þannig ríkan þátt í að bjarga íslensku máli frá útdauða í meðförum  einu þjóðarinnar sem talaði málið.

Var ég búinn að segja að hann var danskur.

Mark Watson var breskur aðalsmaður sem árið 1956 gaf út bók sem heitir: The Iceland Dog 847-1956. Hann var mikill Íslandsvinur og ferðaðist víða og hreifst af landi og þjóð. Hann áttaði sig á því á ferðum sínum um Ísland að íslenskt hundakyn var fágætt en í mikilli útrýmingarhættu. Hann keypti íslenska hunda og ræktaði hunda á búgarði sínum erlendis, vakti athygli heimamanna á því hvernig komið væri fyrir stofninum. Þannig bjargaði Watson íslenska hundinum frá útrýmingu í höndum okkar.

Halda mætti langa ræðu um góðar gjafir Watsons til þess að varðveita íslensk menningarverðmæti, bókagjafir til Landsbókasafns og dýraspítalann í Víðidal þótt það verði ekki gert hér. Watson- eða dear Watson eins og kannski væri réttara að kalla hann á það samt sameiginlegt með Rask að hann áttaði sig á því að í höndum Íslendinga voru verðmæti við það að glatast og greip til sinna ráða.

Var ég búinn að segja að hann var breskur?

Peter Scott eða Sir Peter Scott var einn að merkustu fuglafræðingum og náttúruverndarmönnum Bretlands á tuttugustu öld. Hann var einn af frumkvöðlum í stofnun griðlanda fyrir fugla af margvíslegu tagi og beitti sér fyrir verndun votlendis löngu áður en mönnum varð ljóst gildi þessháttar svæða fyrir fugla og lífríki auk þess að vera einn af stofnendum World Wildlife Fund.

Scott átti ríkan þátt í því að koma hreyfingu á umræðu um náttúruvernd á Íslandi upp úr miðri tuttugustu öld. Hann vann merkar rannsóknir í Þjórsárverum og opnaði augu Íslendinga fyrir því hve svæðið væri dýrmætt og einstakt á mælikvarða heimsins alls sem eitt helsta heimkynni heiðagæsarinnar. Hann beitti sér fyrir stofnun þjóðgarðsins í Skaftafelli en World Wildlife Fund lagði stórfé til stofnunar hans fyrir tilstilli Sir Peters.
Um það leyti sem Finnur Guðmundsson fuglafræðingur og Peter Scott byrjuðu að ösla um votlendið í Þjórsárverum og skyggna gæsir á flótta hefur sennilega enginn Íslendingur gert sér grein fyrir því hvaða verðmæti voru fólgin þarna í fenjum og álum jökulvatna og lundum angandi gróðurs.
Svangir Íslendingar höfðu um aldir farið ríðandi að flokkum ófleygra gæsa og smalað þeim í réttir sem enn standa inni í Þjórsárverum og bera sjálfsbjargarviðleitni forfeðra okkar og veiðimennsku fagurt vitni. Í augum okkar um aldir voru Þjórsárver því matarkista líkt og gjöful veiðislóð og enginn leiddi hugann að því að þau byggju yfir einhverjum verðmætum umfram það fyrr en Peter Scott opnaði gluggann og veitti ljósinu inn.

Var ég búinn að segja að hann var breskur?

Þessir þrír menn eiga það sameiginlegt að hafa hjálpað íslenskri þjóð til þess að bjarga frá útrýmingu eða stórskaða þremur ólíkum hlutum sem þó eiga það sameiginlegt að vera eins íslenskir og hægt er að vera. Í varðveislu og meðförum íslensku þjóðarinnar sjálfrar voru þessir þrír ómetanlegu hlutir hætt komnir og ætti að segja þetta í afar stuttu máli þá hefðum við tapað tungumálinu, íslenski hundurinn hefði dáið út og Þjórárverum líklega verið sökkt hefðu þessir góðviljuðu gestir ekki lagt okkur lið og beint okkur á rétta braut.

Af þessu mætti vel draga þá ályktun að einangrun og einráð heimamanna séu ekki endilega alltaf bestu aðferðirnar til þess að varðveita hrein og ómenguð þau verðmæti sem hvað íslenskust eru talin á hverjum tíma og brýnast að varðveita.

En kannski má fyrirgefa þjóð sem lengi fram á tuttugustu öld var of önnum kafin við að komast í sæmilega upphitað húsnæði, fá nóg að borða og þurrt á fæturna til þess sinna náttúruvernd. Sá sem elst upp við dýrð íslenskrar náttúru fyrir augum sér alla ævi frá morgni til kvölds sér kannski ekki þá sömu fegurð eins vel og sá sem lengra er að kominn. Ekki síst ef hann er alltaf kaldur, svangur og blautur í fæturnar. Þess vegna þurftum við hin glöggu gestsaugu til þess að opna okkar eigin fyrir þeim verðmætum sem lágu

Íslendingar voru einna seinastir Evrópuþjóða til þess að taka upp náttúruverndarlöggjöf og langsíðastir Norðurlandaþjóða, tæpum 50 árum á eftir Svíum og Norðmönnum, 39 árum á eftir Dönum og 33 árum á eftir Finnum.

Nú væri hins vegar freistandi að halda að sú þjóð sem á mótum 20 og 21 aldar telur sig meðal ríkustu þjóða heims mælt  fjölda fermetra á mann, bíla per fjölskyldu, rúmtak ísskáps eða flatarmál skerms miðað við höfðatölu hefði með allsnægtum fengið nýjan og skarpari skilning á þeim verðmætum sem hún þrátt fyrir allt á í landsins öræfum, fallvötnum, mýrum og mosaflám.

Nú er hægt að nota ýmsar viðmiðanir til þess að mæla árangur á þessu sviði og við skulum taka eitt dæmi af handahófi. Íslendingar eru aðilar að Ramsarsáttmálanum um friðlýsingu votlendissvæða sem athvarf fyrir vaðfugla. Ísland gerðist aðili að samningnum 1977 en hann varð til 1971. Til skamms tíma voru svonefnd Ramsarsvæði á Íslandi aðeins þrjú en það eru Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnifjörður við Akranes. Nýlega voru svo Guðlaugstungur og Eyjabakkar tilnefnd sem Ramsarsvæði og unnið er að því að votlendi í Andakíl fái tilnefningu sem sjötta Ramsarsvæðið á Íslandi en fjölmörg svæði á Íslandi myndu uppfylla þau skilyrði sem lögð eru til grundvallar til friðun. Þannig hefur fjöldi þessara svæða á Íslandi tvöfaldast á tiltölulega skömmum tíma sem er vel.

Til samanburðar má nefna að Ramsarsvæði í Danmörku eru 38 en Danmörk gerðist aðili ári seinna en Ísland. Eistland gerðist aðili 1994 og þar eru nú 13 Ramsarsvæði. Líbería sem er eitt af fátækustu ríkjum Afríku gerðist aðili að Ramsarsamningnum 2003 og þar eru 5 Ramsarsvæði.

Samtals eru 1950 svæði kennd við Ramsar í heiminum.

Lengi vel voru Íslendingar ein þriggja Evrópuþjóða sem ekki hafði staðfest Árósasamninginn svokallaða. Samningnum er ætlað að styrkja þrjár lýðræðislegar meginreglur; í fyrsta lagi rétt til upplýsinga, í öðru lagi rétt almennings til að taka þátt í ákvarðanatöku og í þriðja lagi rétt til að bera fram kæru og fá úrskurð dómstóla eða nefndar. Samningurinn gildir eingöngu um ákvarðanir sem hafa þýðingu fyrir náttúru og umhverfi. Með staðfestingu samningsins stíga Íslendingar enn eitt hænufet inn í samfélag siðaðra manna þótt þeir gangi þar óneitanlega aftar í röðinni en margur hefði viljað.

Þannig virðist áhugi okkar á náttúruvernd ekki hafa aukist þótt við séum orðin rík af þessa heims gæðum.

Íslendingar eiga enn í dag dýra fjársjóði sem fólgnir eru í ósnertum náttúruundrum þessa lands. Við eigum víðerni þar sem maðurinn hefur enn ekki sett nein spor að ráði og við eigum fossa og fallvötn sem enn fá að hljóma eins í eyrum okkar eins og þeirra manna sem fyrstir komu til Íslands. Við eigum gríðarlega fjölbreytta náttúru sem er einstök í heiminum því þótt hvert og eitt atriði, hver og einn þráður í hinum glitrandi vef eigi sér ef til vill hliðstæðu einhvers staðar í stórum heimi þá er fágætt að finna svo mörg sérkenni saman aðgengileg ferðamönnum eins og hér á landi.

Við eigum flæðandi lindir af tæru og góðu uppsprettuvatni sem víðast hvar er óhætt að drekka beint úr straumnum án þess að hafa áhyggjur af því að heilsu manns sé stefnt í voða.  Við þessi fámenna þjóð í þessu víðfeðma landi er vellauðug af náttúrugæðum, svo rík að margt af því sem öðrum þjóðum finnst að ekki verði metið til fjár teljum við sjálfsagðan hlut.

Stöðugt fleiri íbúar heimsins líta á ósnerta náttúru sem auðlind sem heimurinn eigi í raun og veru í sameign og það sé skylda hverrar þjóðar að gæta sinna gimsteina fyrir hönd veraldarinnar allrar og hinna ófæddu kynslóða. Dýrmætin í óbyggðum Íslands, víðáttan, þögnin og fegurð hrjóstrugrar náttúru eru minnkandi auðlind í heimi þar sem sífellt fleiri þurfa mat og land og rými til að lifa af.
Hér á undan hefur verið rakið að viðhorf og hugsunarháttur Íslendinga í verndun náttúrunnar og góðrar umgengni um auðlindir hennar hefur í margvíslegum samanburði verið fáeinum áratugum á eftir öðrum þjóðum.

Þegar maður rausar í þessum tón þá verða margir til þess að sussa og vilja ekki heyra svona svartagallsraus og heimsósóma og stundum er reynt að hugga mann með því að hinn gamalkunni áskítugumskónum vaðandi yfir allt hugsunarháttur sé horfinn og nú séu allir sannir framfaramenn meðvitaðir og trjáfaðmandi náttúruvinir sem aldrei myndu hrófla við steini nema með fullum skilningi á afleiðingum þess að steininum væri velt.

Því miður er þetta ekki rétt.

Margir – alltof margir -Íslendingar líta á náttúruna sem eitthvað sem manninum beri skylda til þess að brjóta á bak aftur, leggja undir sig, nytja og rækta, virkja og vinna -og leggja í rúst um leið.

Í skammvinnri sögu hins iðnvædda Íslands blasa við okkur alltof mörg dæmi um skammsýni og græðgi þar sem ómetanlegum náttúruperlum hefur verið fórnað og þær eyðilagðar í nafni hagvaxtar og framfara, stundargróða . Ég þarf ekki að nema rétt að þylja nöfn eins og Kárahnjúkar, Töfrafoss, Tröllkonuhlaup, Þeistareykir, Gljúfurleit, Fagrifoss, Hágöngur til þess að nefna örfá dæmi um náttúruundur sem nú eru annað hvort horfin eða aðeins svipur hjá sjón eftir meðferð og uppbyggingu duglegra manna. Sennilega hefur ekkert unnið eins mikið tjón á íslenskri náttúru eins og duglegir menn.

Kannski hefur  náttúran í hugum of margra Íslendinga nútímans svipaða stöðu og íslensk tunga á tímum Rasks, íslenski hundurinn á tímum Watsons og Þjórsárver um það leyti sem Peter Scott kom og leiddi okkur inn í ljósið.

Við þurfum á leiðsögn og samstarfi annarra þjóða að halda til þess að auka skilning á umhverfisvernd og náttúrunni svo okkur takist að koma fjársjóðum okkar óbrotnum til næstu kynslóða svo þær fái notið þeirra eins og við höfum gert frá landnámi.
Náttúran er það dýrmætasta sem við eigum en við eigum hana ekki ein heldur með öllum heiminum og við eigum að þiggja alla þá hjálp sem í boði er til þess að tröllin brjóti ekki þetta fjöregg okkar allra.

Hér hefur áður verið minnst á merkimiða. Við viljum ekki sjá merkimiða á íslenskri náttúru þar sem standa orð eins og: lægsta orkuverð í heimi- Aðgangur bannaður–aðeins fyrir starfsmenn Landsvirkjunar og Ístaks. Það er aðeins einn merkimiði sem er leyfilegur á náttúru Íslands og á honum stendur: Brothætt.

Þakka þeim sem hlýddu.