Í grein dagsins fjallar Sæmundur E. Þorsteinsson, fjarskiptafræðingur, um áhrif aðildar að Evrópusambandinu á íslenskt þjóðerni og hvernig sú aðild mun í raun styrkja íslenskt þjóðerni. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Stundum er látið að því liggja að fylgi við aðild að Evrópusambandinu sé á einhvern hátt „óþjóðlegt“ og ekki í samræmi við það að vera góður og gegn Íslendingur. Þá vaknar strax  spurningin um það hvað felist í því að vera Íslendingur en við henni er ekkert augljóst svar.

Sumir kynnu að segja að þjóðerni okkar ákvarðist af því að við höfum sameiginlega tungu og menningararf. Aðrir telja að Íslendingar séu þeir sem búa á Íslandi en margir burtfluttir landar okkar samþykkja tæplega að þeir séu hættir að vera Íslendingar þótt þeir hafi búið erlendis um áratuga skeið. Enn aðrir telja að þeir einir séu Íslendingar sem eru komnir af Íslendingum langt aftur í ættir og í æðum þeirra renni „ómengað víkingablóð“.

Þessi seinasta skilgreining átti upp á pallborðið meðal þjóðarinnar nokkuð fram eftir 20. öld og voru jafnvel ákvarðanir stjórnvalda byggðar á henni, t.d. sú að í ameríska hernum á Íslandi skyldu ekki vera þeldökkir menn. Kynþáttahyggjan hefur leitt ómældar skelfingar yfir mannkynið, ekki síst á 20. öld en þrátt fyrir það virðist hún enn eiga upp á pallborðið hjá ýmsum. „Afrek og sigrar“ Íslendinga á útrásartímanum voru t.d. skýrð með „yfirburðum“ kynþáttarins, jafnvel af fólki úr hópi æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Sem betur fer er kynþáttahyggjan ekki lengur við lýði og þeir sem eru haldnir henni uppskera fyrirlitningu eða vorkunn vegna vankunnáttu eða heimsku.

Aðgreining fólks í þjóðir hefur ekkert með kynþáttahyggju að gera. Hins vegar er mjög erfitt  að skilgreina hugtakið „þjóð“ og er það gríðarlega ofnotað í umræðunni á Íslandi. Menn segja t.d. að þjóðin hafi kosið sér forseta þann 30. júní sl. Það er fjarri öllum sanni, aðeins tæp 53% kjósenda kusu forsetann og aðeins tæp 70% kosningabærra nýttu sér atkvæðisréttinn. Þau 63% atkvæðisbærra sem kusu ekki forsetann samþykkja tæplega að þau séu ekki hluti af íslensku þjóðinni.

Skilgreiningin sem fyrst var nefnd, að þjóð ákvarðist af sameiginlegri tungu og menningararfi, er líklega sú sem best dugar. Hana verður þó að lagfæra til að gefa aðfluttum kost á að tilheyra þjóðinni, ef þeir vilja búa meðal hennar og undirgangast þær venjur og reglur sem ríkja hjá henni. Aðild að Evrópusambandinu mun styrkja íslenskt þjóðerni en ekki veikja það. Tungumál okkar, íslenskan yrði með aðild eitt af opinberum tungumálum sambandsins sem þýddi að allar reglur og lög sambandsins þyrfti að þýða á íslensku. Einnig þyrfti að koma upp öflugri túlkaþjónstu, þ.e. það þyrfti fólk sem gæti túlkað milli íslensku og þeirra tungumála sem mest eru notuð í Evrópusambandinu, einkum ensku. Þetta þýðir mjög aukna starfsemi með tungumálið, nýyrðasmíð og þýðingar tækju fjörkipp. Fleiri störf yrðu til fyrir íslenskufræðinga og aðra tungumálasérfræðinga og efla þyrfti menntun í tungumálum. Þar með væri hlúð að megin stoð þjóðernisins, tungunni.

Íslendingar eiga merkan menningararf, einkum á sviði bókmennta. Við þurfum að muna að menningararfurinn varð að mestu til meðan samskipti við aðrar Evrópuþjóðir voru blómleg og menningu okkar hnignaði þegar landið einangraðist. Menning er ekki eingöngu listir, hvers kyns menntun, verkmenning og atvinnuhættir eru líka hluti menningar okkar. Sú tenging við þjóðir Evrópu sem aðild að Evrópusambandinu veitir okkur styrkir alla þessa menningarþætti enn frekar. Þar með styrkir hún einnig þjóðerni okkar.

Niðurstaðan er því sú að aðild Íslands að Evrópusambandinu styrkir íslenskt þjóðerni, einangrun veikir það. Þeir sem taka vilja afstöðu í þágu íslensks þjóðernis styðja því aðild landsins að Evrópusambandinu. Hinir taka í raun afstöðu gegn íslensku þjóðerni.