Hin fleygu orð Gunnars á Hlíðarenda, „Fögur er hlíðin …“, hafa gjarnan verið túlkuð sem yfirlýsing um ættjarðarást hetjunnar sem vill frekar vera drepinn af óvinum sínum en yfirgefa landið sitt. Þetta er sá skilningur sem Jónas Hallgrímsson leggur í orð Gunnars í kvæðinu „Gunnarshólma“ frá 1838: „Því Gunnar vildi heldur bíða hel, / en horfinn vera fósturjarðar ströndum.“ Og þetta er sá skilningur sem Jónas frá Hriflu leggur í orð Gunnars árið 1942 þegar hann átelur Sigurð Nordal fyrir að hafa ætlað að segja upp kennslustöðu við Háskóla Íslands til að taka boði um kennarastöðu í Noregi: „Gunnar á Hlíðarenda vill heldur deyja á Íslandi en þola útlegðardóm í þrjú ár. Nordal dæmir sig sjálfan til óhamingju æfilangrar útlegðar fyrir lítilfjörlega hækkun á mánaðarlaunum.“

Í Njáls sögu er hvergi talað um ættjarðarást Gunnars. Þar er aðeins um það að ræða bónda sem dæmdur hefur verið í útlegð og vill ekki yfirgefa býlið sitt. Gunnar segir þar: „Fögur er hlíðin, svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi.“ Í kvæði sem Gunnar yrkir í haugi sínum gefur hann jafnframt til kynna að raunveruleg ástæða fyrir þessari ákvörðun hans hafi verið sú að hann heldur viljað deyja í bardaga en vægja. Heimildir eru fyrir því að fyrr á öldum hafi lesendur sögunnar tekist á um það hvor hafi tekið rétta ákvörðun, Gunnar eða Kolskeggur bróðir hans sem hlýddi útlegðardómnum, sigldi til Noregs og þaðan Danmerkur, tók skírn og gerðist guðs riddari, og endaði sem höfðingi fyrir Væringjaliði í Miklagarði.

Fræðimenn hafa bent á að orð Gunnars um hlíðina fögru séu umsnúningur á kafla í Alexanders sögu þar sem því er lýst þegar Alexander mikli heldur af stað í herferð sína inn í Litlu-Asíu. „Að komanda morgni gengur konungur á fjall eitt hátt og sér þaðan yfir landið. Þar mátti hann alla vegu sjá frá sér, fagra völlu, bleika akra, stóra skóga, blómgaða víngarða, sterkar borgir. Og er konungur sér yfir þessa fegurð alla þá mælir hann svo til vildarliðs síns: Þetta ríki, er nú lít eg yfir, ætla eg mér sjálfum. En Grikkland, föðurleifð mína, vil eg nú gefa yður upp, segir hann til höfðingjanna.”

Alexandars saga er norræn þýðing á frönsku söguljóði frá 12. öld sem rekur sögu útrásarvíkingsins Alexanders mikla. Lýsing Njáls sögu á Gunnari er skýrt dæmi um það hvernig Íslendingasögurnar er innblásnar af evrópskum menningararfi. Túlkun Jónasar Hallgrímssonar á þeirri lýsingu, sem ort er undir ítölskum bragarháttum, er skýrt dæmi um það hvernig hin evrópska hugmyndafræði þjóðernisstefnunnar hafði áhrif á það hvernig Íslendingar túlkuðu sögurnar á nítjándu og tuttugustu öld.  Það sem er íslenskast í íslenskum bókmenntum er um leið áminning um hve miklir Evrópumenn við erum.

Jón Karl Helgason.