Í grein dagsins fjallar Sigurður M. Grétarsson um þá spurningu hvort raunverulega sé hægt að afnema verðtryggingu með krónu, eins og anstæðingar aðildar Evrópusambandsins og evrunnar hafa haldið fram. Þetta skoðar Sigurður með tilliti til langtímalána eins og húsnæðislána. Hér fyrir neðan má lesa greinina í heild sinni.

Þegar rætt hefur verið um kosti þess og galla þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í stað krónu hefur það oft verið nefnt sem einn af kostunum við evruna að þannig verðum við loks laus við verðtryggingu lána hér á landi. Andstæðingar ESB hafa sagt á móti að við þurfum ekki að taka upp evru til að losna við verðtryggingu því við getum allt eins einfaldlega ákveðið að afnema verðtryggingu þó við notum áfram krónu. Skoðum þessa fullyrðingu nánar hvað langtímalán eins og húsnæðislán varðar.

Þeir aðilar sem lána langtímalán til húsnæðiskaupa þurfa að fjármagna þau lán með skuldabréfaútboði. Með sögu íslensku krónunnar og þeirrar verðbólgu sem oft hefur verið hér á landi verður að teljast mjög ólíklegt að eftirspurn verði eftir óverðtryggðum skuldabréfum í íslenskum krónum til langs tíma með föstum vöxtum. Verðbólgusaga Íslands með sína örmynt er einfaldlega víti sem fjárfestar munu hafa í huga varðandi kaup á slíkum bréfum og því munu þeir ekki kaupa þau nema þá með miklu áhættuálagi sem leiðir þá til mjög hárra vaxta. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta breytist í fyrirsjáanlegri framtíð. Óverðtryggð langtímabréf í íslenskum krónum verða því varla í öðru formi en með breytilegum vöxtum.

Hver er svo munurinn á verðtryggðum lánum og óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum? Í raun eru breytilegir vextir eitt form verðtryggingar því markaðsvextir breytast í samræmi við verðbólguvæntingar og raunávöxtunarkröfu. Aðal munurinn felst í því að í stað þess að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn þá kemur hún strax til útborgunar og er því greiðslubyrði óverðtryggðra lána mun hærri framan af lánstímanum og hækkar mun meira við verðbólguskot heldur en á verðtryggðum lánum.

Vissulega er það rétt að höfuðstóll óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum hækkar ekki þó það komi verðbólguskot en hafa verður í huga að greiðslur af húsnæðislánum eru stór hluti ráðstöfunartekna verulegs hluta húsnæðiseigenda og þeir ráða því fæstir við slíka hækkun á greiðslubyrði án þess að safna skammtímaskuldum jafnvel vanskilaskuldum með þeim kostnaði sem þeim fylgir. Verðbólguskot leiðir því til hækkunar skulda hjá þessum aðilum þó þeir séu með óverðtryggð lán.

Þegar upp er staðið eru breytilegir vextir ekkert annað en óbein verðtrygging sem er miklu erfiðara og óhagstæðara form verðtryggingar fyrir lántaka en bein verðtrygging sérstaklega ef greiðslubyrði lánsins er stór hluti ráðstöfunartekna lántaka. Til að losna við verðtryggingu þarf því að vera hægt að bjóða upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstímann. Til þess að það sé hægt þá þurfum við að nota mynt sem nýtur nægjanlegs traust til þess að fjárfestar séu tilbúnir til að kaupa verðbréf með slíkum skilmálum öðruvísi en með mjög háum vöxtum. Það er ekkert sem bendir til þess að íslenska krónan muni nokkurn tímann njóta slíks trausts. Evran er eina myntin sem okkur stendur til boða sem nýtur slíks trausts fjárfesta. Okkur stendur hún hins vegar einungis til boða ef við göngum í Evrópusambandið.

Málið er einfalt. Við munum þurfa að búa við verðtryggingu beina eða óbeina meðan við notum íslensku krónuna. Einnig er vert að hafa í huga að með notkun evru geta íslenskir lántakendur tekið lán á Evrusvæðinu með þeim vöxtum sem þar standa til boða án gengisáhættu og verða þá ekki ofurseldir íslenskum okurvöxtum eins og þeir verða meðan við notum íslensku krónuna.