Í löndum Evrópu reyna dálkahöfundar og aðrir sem fylgjast með þróun Evrópusambandsins að spá í líkurnar á því að Ísland gangi í sambandið.  Amanda Paul, sem skrifar fyrir dagblaðið Zaman í Tyrklandi, veltir fyrir sér tvístígandi afstöðu Íslendinga til aðildar á sama tíma og Tyrkir keppa að aðild en komast ekki inn.

Paul bendir á að aðild að ESB stjórnist af eftirspurn; það er, að lönd sæki um að fá aðild en sambandið sækist ekki sérstaklega eftir því að fá þau inn. Fyrir ESB sé Ísland nánast „fullkomið umsóknarland“ og að hægt sé að ná samningum um aðild á mettíma.

Amanda Paul sér fram á baráttu um hug og hjörtu Íslendinga á næstu tveimur árum. Hún segir að í þeirri baráttu notfæri andstæðingar ESB-aðildar á Íslandi sér upplýsingaskort um sambandið máli sínu til stuðnings. Í því sambandi bendir hún á sögur um að Íslendingar þurfi að ganga í evrópskan her.

Í greiningu sinni á málum sem muni ráða úrslitum um aðild nefnir Paul að Ísland mun þurfa framúrskarandi samkomulag um fiskveiðar, góðan samning um landbúnað og að hvalveiðimál muni valda vanda um inngönguna. Stöðugleikasamningur um gjaldeyrismál sé ákjósanlegur.

Af greininni má sjá að dálkahöfundurinn gerir sér vel grein fyrir því að Íslendingar muni semja af hörku um sjávarútvegsmál og landbúnað. Það hafi þeir þegar sýnt, til dæmis í samningum um makríl. Stuðningsmenn aðildar standi frammi fyrir því verkefni að sýna fram á að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan Evrópusambandsins.