Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, vonast til þess að umræðan á Íslandi um aðild að Evrópusambandinu snúist ekki bara um efnahagslegan ávinning.

„Ég vona að vinir mínir á Íslandi taki umræðuna um sjálfstæði, og víkist ekki undan því, og reyni að sjá hvað skiptir máli; hvað tapast og hver ávinningurinn er,“ segir Ellemann-Jensen. „Kannski fæst meira út úr því að vera í samstarfi og gangast undir lög og reglur samstarfsins heldur en að standa fyrir utan og vera þá kannski einn og yfirgefinn þegar syrtir í álinn.“

Ellemann-Jensen er vel kunnugur íslenskum stjórnmálum og heimsækir landið árlega á sumrin til veiða. Hann lét ummælin falla í viðtali við Egil Helgason í Silfri Egils í Sjónvarpinu, en viðtalið var tekið á heimili hans í Danmörku.

Hann sagði einnig við Egil að ESB væri fyrst og fremst pólitískt bandalag, gert til að tryggja frið og frelsi í Evrópu. Ein helsta leiðin að því markmiði væri efnahagslegt samstarf.

„Mitt ráð til Íslendinga er að ræða í þaula pólitíska þætti málsins og lítið ekki á aðild eingöngu út frá efnahagslegum ávinningi á erfiðum tímum,“ segir Uffe Ellemann-Jensen.