Í grein dagsins fjallar Leifur Björnsson, leiðsögumaður og rútubílstjóri, um hugmyndina á bakvið stofnun ESB og þann frið sem haldist hefur í álfunni vegna ESB, í tilefni þess að fyrir stuttu fékk ESB friðarverðlaun Nóbels. Þá veltir hann upp þeirri spurningu hvort aðild að ESB geti stuðlað að meiri frið hér á landi. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Það var vel til fundið að veita Evrópusambandinu friðarverðlaun Nóbels.

Eftir endalaus stríð og átök í gegnum aldirnar og tvær heimstyrjaldir á síðustu öld, frá 1914 til 1918 og síðan aftur 1939 til 1945 var meginland Evrópu í rúst. Hugmyndafræðin með stofnun ESB var að samþætta hagsmuni Evrópuþjóða þannig að stríð þeirra í millum væri óhugsandi.

Formlegt upphaf Evrópusamrunans má rekja til yfirlýsingar Roberts Schumans, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, þann 9. maí árið 1950, þegar hann lýsti yfir áformum um náið samstarf sex Evrópuríkja.

Sáttmálin um Kola- og stálbandalag Evrópu var svo undirritaður í París árið 1951 en þá hófu Belgía , Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland yfirþjóðlega samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í hefðbundnu milliríkjasamstarfi. Það markar síðan upphaf Evrópusambandsins.

Í dag eru ríki Evrópusambandsins  27 talsins.

Danmörk, Bretland. Og Írland fengu aðild árið 1973.

Grikkland fékk aðild árið 1981.

Árið 1986 gengu Spánn og Portúgal í Evrópusambandið.

Árið 1995 ári eftir gildistöku EES samningsins gengu Austurríki, Svíþjóð og Finnland í Evrópusambandið.

Árið 2004 gengu 10 ríki í Evrópusambandið. Þau voru Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Ungverjaland og Tékkland.

Árið 2007 bættust síðan Rúmenía og Búlgaría í hópinn og árið 2013 mun Króatía bætast í hópinn.

Þrátt fyrir efnahagsörðugleika á evrusvæðinu eru líkurnar á stríði milli ESB landa nánast engar. Það gleymist líka í umræðunni að ESB svæðið í heild sinni stendur betur að vígi efnahagslega heldur en Bandaríkin,  Japan eða Ísland, þó það eigi ekki við um Grikkland eitt og sér.

Það er staðreynd að ESB hefur tryggt frið á því svæði sem það nær til og er ásamt NATO það bandalag sem best hefur tryggt frið í Evrópu eftir 1945.

Spurningin sem kemur upp í hugann er: Getur ESB aðild stuðlað að meiri frið á Íslandi líkt og ESB hefur stuðlað að friði í Evrópu?

Þegar Ísland hlaut sjálfstæði frá Dönum árið 1919 höfðum við notað sama gjaldmiðil og Danir síðan 1397.  Verðgildi íslensku krónunnar var jafnt hinni dönsku. Í dag þurfum við að borga meira en 2100 krónur fyrir dönsku krónuna miðaðvið verðgildi árið 1919.

Árið 1981 tókum við 2 núll af  íslensku krónunni og þá var íslenska krónan með sama verðgildi og sú danska í nokkra daga. Í dag kostar danska krónan yfir 21 krónu.

Sá gríðarlegi óstöðugleiki sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf og verið fylgifiskur krónunnar hefur valdið miklum ófriði og illindum í Íslensku þjóðfélagi.

Þau illindi sem mestri ólgu valda í dag eru mikil hækkun gengistryggðra lána annars vegar og verðtryggðra lána hinsvegar, eftir bankahrun, auk þess sem gjaldeyrisshöftin valda stjórnendum í íslenskum fyrirtækjum miklum pirringi og erfiðleikum þó almenningur finni minna fyrir þeim.

Við ESB aðild og í fyllingu tímans með upptöku evru munum við losna við öll þessi illindi og tryggja frið og eindrægni í íslensku samfélagi.

Ef við ætlum að losna við verðtryggingu, gjaldeyrisshöft, miklu hærri fjármagnskostnað en í ESB löndum og koma í veg fyrir að Ísland haldi áfram að dragast langt aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum í lífskjörum þá verður það ekki gert öðruvísi en með ESB aðild og sem nánustu  samstarfi við nágranna og vinaþjóðir. Það verður aldrei sátt um einangrun, fátækt og höft.  Forsendan fyrir alþjóðlegu samkeppnishæfu atvinnulífi sem greitt getur há laun er ESB  aðild og upptaka evru  í  fyllingu tímans.  Minna má á að með aðild að ESB er engu meiri skriffinska fólgin í að flytja vörur milli London og Hafnafjarðar en á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ef dugmikið fólk á að geta; grætt á daginn og grillað á kvöldin;  svo vitnað sé í þekktan frasa frá tímun góðærisins  þá er ESB aðild forsendan.

Grímsnes, 19. október 2012.