Í grein dagsins fjallar Örvar Rafnsson, stjórnmálafræðingur, um þá umræðu sem skapast hefur um hinn svokallaða Evrópusambandsher, sem samt sem áður er ekki til, og fer nánar í hina sameiginlegu öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Hér fyrir neðan má lesa greinina í heild sinni.

Í umræðunni um Ísland og Evrópusambandið hefur annað slagið komið upp að Evrópusambandið sé hlynnt Evrópusambandsher eða þá að það hyggst setja á fót sameiginlegan her. Þessi umræða verður oft á tíðum ansi tilfininngarík og hvöss og kannski ekki að ástæðulausu. Ísland er eitt örfárra landa í heiminum án eigins hers og það ríkir mikil andstæða við hverskonar hernaðaruppbyggingu, bæði innanlands sem utan. Það reynist því auðvelt fyrir þá sem eru á móti aðild Íslands að notfæra sér þessa andstöðu og halda því fram að Evrópusambandið ætli sér að koma upp her, eða jafnvel að setja á fót herskyldu. Í ljósi þessa er vert að rekja hvaðan þessar hugmyndir eru tilkomnar og hvort eitthvað sé til í þeim.

Aðildarríki Evrópusambandsins hafa allt frá stofnun þess í núverandi mynd ákveðið að hafa einhverskonar sameiginlega stefnu í öryggis- og varnarmálum. Þegar Júgóslavía liðaðist í sundur á tíunda áratug seinustu aldar kom það bersýnilega í ljós að sambandið var alls ekki í stakk búið að hlutast til með árangursríkum hætti og stöðva blóðbaðið. Evrópa brást en eitthvað varð að gera. Árið 1999 var samþykkt í Helsinki að koma á sameiginlegri evrópskri öryggis- og varnarstefnu með það að leiðarljósi að stuðla að friði og öryggi í samræmi við meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áhersla var lögð á sjálfstæða getu sambandsins til þess að koma í veg fyrir átök með svokallaðri áhættustjórnun (e. crisis management), hvort er borgaralegri eða hernaðarlegri, og koma á fót viðbragðsveit hermanna sem aðildarríkin létu sambandinu í tjé ef þau kusu svo. Hlutverk þessara sveita er skýrt, það snýst eingöngu um áhættustjórnun og friðargæslu, það er, að koma í veg fyrir að átök blossi upp (sbr. á Balkanskaga) og sér líka um hvers konar mannúðar- og björgunarstörf. Mikil andstæða hefur verið meðal aðildaríkjanna að koma á fót sameiginlegum herafla sem lýtur stjórn Evrópusambandsins.

Þegar ný öryggis- og varnarmálastefna var samþykkt með Lissabon sáttmálanum árið 2009 varð umræðan enn háværari um að nú væri búið að gefa heimild fyrir stofnun Evrópusambandshers.  Í raun breytir Lissabon sáttmálinn ekki miklu varðandi einhvers konar ímyndaða hervæðingu sambandsins, varnarmál munu enn sem áður heyra eingöngu undir stjórn þjóðríkjanna. Aðildarríkin munu sem áður fyrr sjálf taka ákvarðanir um öryggis- og varnmál sín og hin mismunandi afstaða þeirra verður sem fyrr áfram virt, s.s. hlutleysisstefna eða Nató skuldbindingar.  Hinsvegar er vert að minnast þess hverju nýi sáttmálinn breytir en þær breytingar hafa ekkert með stofnun hers að gera. Nýjar greinar sáttmálans kveða á um að aðildarríki sýni hvert öðru samstöðu, ef svo ólíklega vildi til að þau yrðu fyrir hernaðarlegri árás, og ef neyðarástand skapast, t.d.vegna náttúruhamfara, farsótta, hryðjuverkaárása o.s.frv.  Hin nýju ákvæði öryggis- og varnarstefnunnar munu heldur ekki breyta miklu ef Ísland gerist aðildarríki Evrópusambandsins þar sem aðildarríkin hafa rétt á að standa utan við sameiginlegu stefnuna (eins og Danmörk eitt gerir) en síðast og ekki síst vegna þess að við erum ennþá í Nató og höfum verið svo í yfir sex áratugi. Á þeim tíma hefur Nató virt þá ákvörðun Íslands að vera herlaust land. Það að halda því fram að Evrópusambandið muni á einhvern hátt getað skikkað Ísland að hervæðast er í raun fásinna. Ef hernaðarbandalagið Nató hefur ekki gert það mun Evrópusambandið örugglega ekki gera það.