Andstæðingar Evrópusambandsins og aðildar Íslands að sambandinu hafa nú í nokkurn tíma sagt óhugnanlegar sögur af því sem þeir vilja meina að sé hernaðarbandalag sem mun neyða Íslendinga til þess að senda afkvæmi sín í hinn óhugnanlega Evrópusambandsher ef Ísland verður aðildarríki Evrópusambandsins. Nú fyrir stuttu fengu draugarnir á bak við sögurnar Samtök ungra bænda með sér í lið og fengu þá til þess að birta auglýsingu í fjölmiðlum landsins sem varaði landsmenn við því að með aðild að Evrópusambandinu fylgir herskylda fyrir okkur Íslendinga gagnvart hinum „væntanlega Evrópusambandsher“. Þar sem þessar sögur andstæðinga Evrópusambandsins eru álíka sannar og sú að Al-Kaída sérhæfi sig í blómaskreytingum ákvað ég að deila með lesendum nokkrum staðreyndum um utanríkis-, öryggis-, og varnarmál Evrópusambandsins.

Það var í Maastricht-sáttmálanum, sáttmálanum sem formlega myndaði Evrópusambandið í núverandi mynd, sem fyrst var kveðið á um sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það eru utanríkismál enn að langmestu leyti á forræði aðildarríkjanna sem eru langt frá því að tala einni röddu í utanríkismálum en það kom greinilega í ljós í Íraksdeilunni þar sem aðildarríki Evrópusambandsins skiptust í hóp stuðningsmanna innrásinnar í Írak og andstæðinga hennar.

Það verður þó að segjast eins og er að uppi hafa verið raddir um sameinað herlið Evrópuríkja, allt frá því að Winston Churchill viðraði slíkar hugmyndir til Angelu Merkel, núverandi kanslara Þýskalands. Sú hugmynd hefur þó ekki orðið að veruleika og í raun þykir ansi ólíklegt að svo verði einhvern tímann. Árið 1999 var þó samþykkt að koma á fót sameiginlegri evrópskri viðbragðssveit sem skipuð yrði um 60.000 hermönnum. Hér er alls ekki um sérstaka hersveit Evrópusambandsins að ræða heldur er sveitin skipuð hermönnum úr herjum aðildarríkjanna sem helst eiga að sinna friðargæsluverkefnum. Liðsafli og búnaður er byggður upp á loforðum aðildarríkja um framlög ef til átaka kemur og og hvert ríki tekur ákvörðun um hvort það veiti hernaðarlega aðstoð eða annars konar aðstoð og ekkert ríki er skuldbundið til þess að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Fyrsta sjálfstæða verkefnið sem Evrópusambandið tók að sér var árið 2003 þegar tekið var yfir verkefni alþjóðalögreglusveita Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Hersegóvínu. Síðan þá hafa verkefnin verið margvísleg, en sem dæmi má nefna aðgerðir á svæðum Vestur-Balkanskaga, í Palestínu, Írak, Darfúr, Georgíu og Úkraínu. Evrópusambandið reynir með þessum aðgerðum að stuðla að útbreiðslu lýðræðis og verndun mannréttinda í heiminum.

Með útbreiðslu lýðræðis og verndun mannréttinda í huga er mikilvægt að nefna þá staðreynd að Evrópusambandið og ríki þess eru langstærstu veitendur þróunaraðstoðar í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram það markmið að vel stæð ríki heims leggi fram 0,7% af landsframleiðslu til þróunarmála en öll þau ríki sem hafa uppfyllt markmið Sameinuðu þjóðanna eru í Evrópu.

Þróunarverkefni Evrópusambandsins ná í dag til allra heimshorna og hinna ýmsu sviða og er þeim meðal annars ætlað að aðstoða þróunarríki við að taka þátt í alþjóðaviðskiptum upp á eigin spýtur. Samkvæmt samkomulagi um fríverslun með vörur aðrar en vopn fellir Evrópusambandið til að mynda einhliða niður tolla af helstu framleiðsluvörum frá fátækustu ríkjum heims samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna en strangar reglur um sjúkdómavarnir og öryggi standa enn í vegi fyrir viðskiptum að einhverju leyti. Þetta er þó allt gert til þess að aðstoða fátækustu ríki heimsins sérstaklega.

Vegna þessara atriða get ég ómögulega skilið hvers vegna andstæðingar Evrópusambandsins og aðildar Íslands að því eyða öllu sínu púðri í hræðsluáróður sem á sér engar stoðir í veruleikanum, hræðsluáróður um hernaðarbandalag sem við nánari athugun virðist stjórnast af mannúðarsjónarmiðum eins og þróunaraðstoð og lýðræðisumbótum í heiminum, í stað þess að fjalla um þau málefni Evrópusambandsins sem í raun skipta okkur máli og eru sönn. Ég get ekki annað en vonað að einhvern tímann fljótlega verði hægt að ræða staðreyndir málsins á mannamáli og að andstæðingar Evrópusambandsins hætti að segja lygasögur og slappi af í ímyndunarveikinni, en ef ekki get ég að minnsta kosti talist heppin að fá ekki boð á viðburði hjá þeim þar sem mikið er um blómaskreytingar.

Grein birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2010