Spá forseta Íslands um Kötlugos, hugsanleg Evrópusambandsaðild og andkapítalískt andóf í kjölfar Hrunsins er meðal þess sem Haukur Már Helgason fjallar um í greininni  „Að vera eyland“ í nýju hefti Tímarits Máls og menningar. Haukur rifjar þar upp að þegar Íslendingar hafi skrifað undir EES samninginn hafi svo að segja enginn þingmaður lýst í umræðum „yfir beinum stuðningi við sambandið sem pólitískt verkefni. Allar röksemdir fyrir samningnum byggðust á efnahagslegri þýðingu hans. Enginn alþingismaður talaði nokkurn tíma til stuðnings fólksflutningum, ferðafrelsi, menningaráhrifum, breiðari pólitískum vettvangi eða þátttöku í stækkuðu samfélagi. Raunar vísuðu flestir stuðningsmenn gagnrýni á bug með því að gera lítið úr áhrifum samningsins og bentu á að hægt væri að hafa eftirlit með fólksinnflutningi o.s.frv. Aðalbragð þeirra var þó það sama og nú – ruddaleg þögn.“

Haukur greinir mótsagnakennda afstöðu Íslendinga til aðildaviðræðnanna nú sem merki um duldan geðklofa meðal þjóðarinnar og vitnar meðal annars til skrifa breska geðlæknisins R.D. Laing í því sambandi. Samkvæmt Laing geta hugkleifir einstaklingar verið á valdi órökvíss ótta við aðra, jafnvel sjálfa sig, þeir einangra sig, verða stjarfir eða koma fram við aðra eins og dauða hluti.  Haukur greinir bæði fylgjendur og andstæðinga Evrópusambandsaðildar hér á landi í þessu ljósi en lýsir þó sjálfu yfir eindregnum stuðningi við umsókn Íslands. Rök hans eru af pólitískum toga:

„Flestir af þeim vinstrimönnum sem eru ekki beinlínis andvígir umsókn Íslands að Evrópusambandinu gera lítið úr mikilvægi hennar og segja hana ekki skipta máli fyrir raunverulega, róttæka pólitík. Sumir leika út báðum spjöldum. Ég er ekki sammála. Þar sem EES samningurinn er nú álitinn vera tímabundnar leifar liðins tíma stendur valið, til langs tíma litið, milli fullrar aðildar að Evrópusambandinu eða áframhaldandi tilviljunarkenndra fríverslunarsamninga við Kína eða hvern þann sem ber að garði, án nokkurrar þýðingar nema peningalegrar, án nokkurra aukinna lýðréttinda og án nokkurs aukins svigrúms fyrir frjáls félagasamtök. … Eftir 16 ára aðild að EES-samningnum væri lokun landamæra Íslands fyrir Evrópu sambærilegt því að fella stjórnarskránna úr gildi og takmarka gildissvið lýðréttinda við geðþóttaákvarðanir sveitarfélags – og það tækifærissinnaðs og geðkofa sveitarfélags. Ég veðja á ófyrirséða möguleika stærra samfélags, ókannaða möguleika uppnámsins sem í því felst að tengjast sameiginlegu umdæmi hugsýkinnar.“