Sextán ára gömul ummæli Hjörleifs Guttormssonar úr þingumræðum um EES samninginn eru kveikjan að grein í Fréttablaðinu sem Guðmundur Andri Thorsson birtir í  dag undir titilinum Neitendur gegn neytendum“.

Guðmundur Andri gerir þar að umtalsefni neikvæða afstöðu Hjörleifs til neytenda og þeirra raka að nánara samstarf Íslendinga við ESB leiði til lægra vöruverðs hér á landi. „Að baki þessu tali,“ skrifar Guðmundur Andri um ummæli Hjörleifs, „liggur skiptingin í hin verðugu og hin gráðugu. Hin verðugu framleiða matvöru. Það hvort markaður er fyrir þá vöru skiptir ekki máli enda sé það hlutverk ríkisvaldsins að sjá til þess að hún sé keypt. Fólk verður bara að borða meira lambakjöt, sagði Lúðvík. Hin gráðugu starfa hins vegar við atvinnugreinar sem við þurfum síður á að halda eins og til dæmis kennslu, pípulagnir, listir, afgreiðslustörf, þvottavélaviðgerðir … Því kjarni málsins er þessi: Mikilvægara er að framleiðendur vörunnar fái það verð sem þeir telja sig þurfa að fá en að neytendur (afsakið svo dónalegt orð) fái að greiða það verð sem þeir treysta sér til. Hjörleifur hæðist að hugtakinu „neytendur“. Fyrir honum eru bara til neitendur enda einn okkar helsti neitendafrömuður.“

Í niðurlagi greinar sinnar segir Guðmundur Andri ennfremur: „Þegar maður heyrir Ragnar Arnalds … tala um íslensku krónuna, þá telur hann henni það helst til tekna að vera „sveigjanleg“. Það er að segja, hversu auðvelt er að fella gengi hennar. Það er að segja hversu öflugt tæki til kjaraskerðingar hún er. Hjörleifur er ámóta áhugasamur um lífskjör almennings og telur hvers kyns viðleitni til lækkunar vöruverðs til marks um „græðgissjónarmið“ og til þess fallna að „setja mannkynið á vonarvöl á plánetunni jörð“.“

Grein Guðmundar Andra Thorssonar í heild sinni.