Það er svo dæmigert fyrir alla umræðu um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi að umræðan fer fram í píslarhætti. Þetta blasir við þegar rætt er um hugsanlega þátttöku Íslands í ESB. Þeir sem ekki eru sammála þessari nauðhyggju; eru á móti öllu sem íslenskt er, svo ég vitni til orða nokkurra þingmanna við Austurvöll.

Sumir taka vart til máls öðruvísi en segja: Við eigum engra kosta völ, nauðsyn krefur, nauðsynlegt er, við neyðumst til, það er óhjákvæmilegt = ef við ætlum að eiga samstarf við hið erlenda samfélag. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði um Schengen „Ísland átti ekki nema tvo kosti, að taka þátt í samstarfinu eða ekki. (Björn alltaf nokkuð rökfastur) Að gera það ekki þýddi jafnframt að hin nánu og góðu tengsl við hin Norðurlöndin myndu byrja að gliðna með ófyrirsjáanlegum áhrifum.

Davíð Oddsson sagði „Með nýjum lögum um málefni útlendinga og atvinnuréttindi þeirra, aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu, hygg ég nær sanni vera að Ísland sé – þegar á allt er litið – meðal opnustu ríkja Vestur-Evrópu. Meira að segja svo að menn velta því fyrir sér hvort of langt hafi verið gengið.“

Sagt er að nú megi fólk frá Evrópu ferðast til Íslands hindranalaust. Það hafi bara þurft að gera þetta, Norðurlandasamstarfsins vegna. Okkur langaði ekki en nauðsyn krafði. Kannski gengum við of langt, en það var óhjákvæmilegt.

Innan ESB eru veidd 7 millj. tonna af 225 þús. sjómönnum, sem er 31 tonn á sjómann. Ísland veiðir 1.8 millj. tonna með 4.500 sjómönnum, sem 400 tonn á sjómann. Hagræðing mjög mikil innan íslensks sjávarútvegs. Innan ESB eru alltof margir veiðimenn að veiða alltof fáa fiska. Á sama tíma eru lífskjör að batna í öðrum starfsgeirum og sjómenn dragast aftur úr og vitanlega vex óánægja meðal þeirra. Fiskveiðistefna ESB hefur ekki virkað og þeim er það ljóst. Þar má m.a. benda á að 88% stofna þeirra eru ofnýttir.

Íslenskir útgerðarmenn eiga umfangsmikil fiskvinnslufyrirtæki innan ESB svæðisins, þeir selja sjálfum sér óunninn fisk í þúsunda tonna vís og þeirra hagur að hafa verðið eins lágt og kostur er til þess að losna undan háum tollum. Það er verið að flytja alla þessa vinnu frá Íslandi. T.d. vinna um 800 manns hjá íslensku fiskvinnslufyrirtæki á Humbersvæðinu. Eigendur stórra íslenskra útgerðarfyrirtækja eiga enn stærri fiskveiðifyrirtæki innan ESB og þeirra hagsmunir í viðræðum við Ísland eru í raun meira þar en hér heima.

Umræðan hér heima snýst í raun um eignarhald íslenska kvótans, ekki þá fisksveiðistjórnun sem framkvæmd er með kvótastjórnun. Það getur orðið Íslendingum hættulegt að fara í þessar viðræður, eins og eignarhaldinu er fyrirkomið hjá okkur í dag. Hvaða viðhorfum munum við mæta í viðræðum við ESB? Er svo víst að þau verði okkur óhagstæð?

Sé litið til stöðunnar hljóta vera töluverðar líkur á því að það verði keppikefli ESB að sveigja sitt kerfi að íslenska kerfinu og nýta tækifærið um leið til þess að taka til í sínu kerfi. ESB hefur ekkert um það að segja hvernig aðildarríkin úthluta kvóta. Kvótakerfið er og verður á forræði Íslendinga einna. ESB á engar auðlindir, það eru hin fullvalda aðildarríki sem eiga þær.

Hækkandi orkuverð og mengunarskattar eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á sjávarútveg, ekki bara sókn skipanna, heldur einnig það sem tíðkast í dag. Óunninn fiskur er frystur og svo fluttur um langa leið milli staða, jafnvel alla leið til Kína, þar sem hann er affrystur og unninn og svo frystur aftur og fluttur tilbaka.

Umræða um kvótakerfið okkar snýst alltaf yfir í umræðu um eignarhald. Þar er svo oft í hinni löskuðu íslensku umræðu, að tveim óskyldum hlutum blandað saman og nauðhyggjan er við völd í orðræðunni. Veiðistjórn Íslands er framkvæmd með kvóta og það gengur vel. Eignarhald á kvótakerfinu er allt annað og algjörlega óskyldur hlutur. En það er aftur á móti hagur útgerðarmanna að tengja þessa umræðu saman og hún snýst síðan ætíð upp í fáránlega endaleysu sem vitanlega gengur ekki upp.

Það blasir við að styrkjaleið við fátækustu lönd þriðja heimsins gengur ekki upp. Stuðningur við fátæk ríki í þriðja heiminum verður fyrst raunsær, þegar farið verður að styðja atvinnulíf í þessum löndum. Mönnum miði ekkert áfram með styrkveitingum, eini raunhæfi kosturinn sé uppbyggingu atvinnulífs. Þar er einungis einn kostur; uppbygging landbúnaðar og matvælaframleiðslu heimamanna í þessum ríkjum.

Vaxandi fjöldi spáir þetta sjónarmið muni njóta vaxandi stuðnings og hafa gríðarlega mikil áhrif á aðgerðir í náinni framtíð hvað varðar stuðning við landbúnað og endurskoðun á stefnu ríku þjóðanna. Þannig að það er ekki víst að það sem við erum að ræða í dag um landbúnaðarstefnu ESB, verði endilega það sem menn ræði eftir nokkur ár.

Guðmundur Gunnarsson