Seðlabanki Íslands hefur gefið út skýrslu til efnahags- og viðskiptaráðherra í sérriti nr. 4 undir heitinu Peningastefnan eftir höft.

Í skýrslunni er fjallað um helstu sjónarmið er koma til álita þegar tekin er ákvörðun um fyrirkomulag gengis- og peningamála á Íslandi eftir að efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýkur og gjaldeyrishöft hafa verið afnumin.

Fjallað er um fyrirkomulag peningastefnu og er niðurstaðan sú að aðild að Myntbandalagi Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, sé besti kosturinn ef falla eigi frá sjálfstæðri peningastefnu og fljótandi krónu. Um það segir þar m.a:

„Ef fallið yrði frá sjálfstæðri peningastefnu með fljótandi gjaldmiðil og tekin upp fastgengisstefna væri heppilegast út frá hagrænum sjónarmiðum að festa gengi krónunnar við evruna. Fastgengisstefna hefur bæði kosti og galla. Meðal helstu kosta eru að óvissa tengd gengissveiflum verður minni, a.m.k. ef tekst að varðveita fastgengið og forðast spákaupmennskuárásir. Á móti kemur  að sjálfstæðri peningastefnu verður ekki beitt með innlendar efnahagsaðstæður í huga. Aðlögun þjóðarbúskaparins í kjölfar ytri skella á sér því stað í meira mæli í gegnum raunstærðir líkt og atvinnu og framleiðslu. Þetta er þó ekki einhlítt, því að innlendar hagsveiflur kunna einnig að eiga rót sína að rekja til gengissveiflna að nokkru leyti. Verði fastgengisfyrirkomulag hins vegar tekið upp, eru mismunandi útfærslur mögulegar. Innganga í Myntbandalag Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, virðist betri kostur en tenging við evruna eða einhliða upptaka hennar eða önnur veikari form fastgengistengingar.″

Einnig segir:

„Þannig áynnust kostir trúverðugrar fastgengisstefnu með minni tilkostnaði en bæði upptaka myntráðs og einhliða upptaka evru. Seðlabanki Íslands fengi einnig aðild að Evrópska Seðlabankanum og hlutdeild í myntsláttuhagnaði (e. seigniorage) bandalagsins. Innlend fjármálafyrirtæki fengju jafnframt aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu í evrum hjá Seðlabanka Evrópu, í gegnum Seðlabanka Íslands sem yrði hluti evrópska seðlabankakerfisins.″

Seðlabankinn boðar viðamikla skýrslu á næsta ári um kosti og galla aðildar að EMU. Hún verður án efa fróðleg lesning og mun skjóta styrkari stoðum undir málefnalega umræðu um þetta mikilvæga hagsmunamál okkar allra.

Sérrit Seðlabanka Íslands