Í dag, 9. maí, er Evrópudagurinn. Dagurinn sem markar upphafið að Evrópusamrunanum sem síðar varð að Evrópusambandinu. Tillögur þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, Roberts Schumans, um náið samstarf ríkja Evrópu eru taldar marka upphafið að langvarandi samrunaþróun Evrópu og ár hvert er fæðingardegi Evrópu, 9. maí fagnað víða um Evrópu.

Í gegnum tíðina hefur pólitískt sundurleyti og hernaðarlega átök einkennt Evrópu. Um miðbik tuttugustu aldar var stór hluti Evrópu rústir einar eftir tvö gjöreyðingarstríð. Undir lok síðari heimsstyrjaldar óx þeirri hugmynd fiskur um hrygg að koma á umfangsmiklu og yfirþjóðlegu samstarfi meðal þjóða Evrópu. Það þótti farsælla til árangurs að vinna saman að sameiginlegum viðfangsefnum þvert á landamæri álfunnar í stað þess að hætta á frekari stríðsrekstur með áframhaldandi hörmungum. Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk hófust þreifingar í þá átt að koma á formlegu og fastbundnu samstarfi.

Upphaf Evrópusamvinnunnar er rakið til yfirlýsingar Roberts Schumans, þáverandi utanríkisráðherra Frakklands, þann 9. maí árið 1950, um náið samstarf sex Evrópuríkja. Sáttmálinn um Kola- og stálbandalag Evrópu var undirritaður í París árið 1951 en þá hófu Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland yfirþjóðlega samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í hefðbundnu milliríkjasamstarfi. Síðan þá hefur samstarfið verið í sífelldir þróun og mótun og færst út til nýrra viðfangsefna og ríkja.

Í dag eru sextíu ár frá því að nokkrir einstaklingar töldu að betri leiðir en stríð væru mögulegar. Aðildarríkin eru orðin 27 og málefni Evrópusambandsins orðin fleiri en hægt er að telja á fingrum sér og spanna allt frá réttindum borgara Evrópu til umhverfisverndar til þróunaraðstoðar. Frelsi, velferð, friður, samvinna og virðing fyrir mannréttindum eru dæmi um þau meginmarkmið sem Evrópusambandið vinnur með og hefur meginmarkmiðið um frið milli ríkja sambandsins haldist í hendur við uppbyggingu álfunnar. Það ber því að fagna sextíu ára afmæli hinnar nýju Evrópu.

Til hamingju með daginn Evrópa!

Sema Erla Serdar. Höfundur greinarinnar er formaður Ungra evrópusinna.