filma

Evrópska kvikmyndahátíðin (e. European Film Festival Iceland / EFFI) verður nú haldin í annað sinn í Bíó Paradís dagana 19.-29. september 2013 en henni er ætlað að gefa þverskurð af því besta sem

álfan hefur uppá að bjóða innan kvikmyndagerðar. Hátíðin er haldin á vegum Evrópustofu – Upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi í samstarfi við Bíó Paradís.

„Evrópskir kvikmyndagerðamenn eru fremstir meðal jafningja og við erum stolt af því að geta boðið íslenskum áhorfendum að sjá nokkrar af nýjustu og ferskustu Evrópsku myndunum undanfarin misseri hér í bíóinu. Það er einnig stórkostlegt staðreynd að loks verður kominn upp nýr stafrænn sýningarbúnaður og hljóðkerfi, svo að myndirnar verða sýndar í bestu mögulegu gæðum,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar. Boðið verður upp á 12 nýjar og nýlegar myndir frá Evrópu auk eldri mynda í leikstjórn Agniezsku Holland sem er heiðursgestur hátíðarinnar.

Hátíðin hefst fimmtudaginn 19. september og þá er öllum boðið frítt í bíó og að sýningum loknum verður efnt til fjörugra blágresistónleika í takt við tónlistina sem leikin er í opnunarmynd hátíðarinnar, hinni margverðlaunuðu Broken Circle Breakdown. Hún hefur farið hefur sigurför um Evrópu og er jafnframt tilnefnd er til áhorfendaverðlauna Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2013.

Agnieszka Holland er heiðursgestur

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er pólska kvikmynda- og sjónvarpsleikstýran Agniezska Holland. Hún er einnig verðlaunaður handritshöfundur en einna þekktust er hún fyrir framlag sitt til pólitískrar kvikmyndagerðar í Póllandi. Hún er talin ein af fáum starfandi kvenleikstjórum í Hollywood sem hefur getið sér gott orð í listrænni og pólitískri kvikmyndagerð og var kvikmynd hennar  „Í myrkrinu“(e. In Darkness) meðal annars tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í fyrra  Sérstök sýning verður sett upp í anddyri Bíó Paradísar sem fjallar um í feril Holland sem veitir gestum einstaka innsýn inn í heim kvikmyndaleikstjórnar í Evrópu á níunda og tíunda áratugnum.

Sjónlýsing fyrir blinda

Stærsti viðburður Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar verður sýning á myndinni „Í myrkrinu“(e. In Darkness) eftir Agniezsku Holland með sérstakri sjónlýsingu fyrir blinda. Þessi dagskráliður er hluti af samvinnuverkefni Bíó Paradísar og Wroclaw-West Menningarmiðstöðvarinnar í Póllandi um að bæta aðgengi fatlaðra að menningu. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu en verndari þess í Póllandi er Agniezska Holland. Verndari verkefnisins á Íslandi verður kynntur á hátíðinni.

Meðal annarra sérviðburða hátíðarinnar er sérstök móttaka fyrir börn í tilefni frumsýningar lettnesku barnamyndarinnar „Mamma ég elska þig“ (e. Mother, I Love You) og fjörug dansveisla til heiðurs Evrópskri dansmenningu í kjölfar sýningar heimildamyndarinnar „Shut Up and Play the Hits“.

„Það er okkar von að Evrópsk Kvikmyndahátíð verði að árlegum viðburði  þar sem kastljósinu er beint að Evrópskri kvikmyndagerð og menningu,” segir Hrönn og bætir við að miðaverði sé mjög stillt í hóf á hátíðinni, eða aðeins 700 krónur á hverja sýningu, til að sem flestir getið nýtt sér það sem þar er í boði. Smærri útgáfa af hátíðinni verði haldin á Akureyri síðar á árinu, í samstarfi við kvikmyndaklúbbinn Kvikyndi.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís

hronn@bioparadis.is

sími: 412 7712