Morgunblaðið (Mbl) hefur stundað það undanfarið ár að gera hugsanlega aðild okkar að ESB tortryggilega. Blaðið hæðist að því, þegar talað er um að taka „upplýsta“ ákvörðun í þessu máli. Upplýst ákvörðun felst í því að taka aðildarsamninginn, lið fyrir lið, og útskýra fyrir þjóðinni hvað hann myndi þýða fyrir líf okkar, atvinnu, menningu, alþjóðleg samskipti, peningamál og margt fleira. Að lokinni slíkri kynningu vilja menn að þjóðin tjái vilja sinn í almennri atkvæðagreiðslu. Þetta er, held ég, sannleikurinn um upplýsta ákvörðun. Leiðarahöfundur Mbl hæðist að þeim sem svona hugsa og segist vera með svörin á reiðum höndum. Við hin þurfum  ekki að lesa eða hugsa. Við eigum að treysta honum og þeim sem skrifa í hans anda. Hugsanlega er hin upplýsta umræða svo hættuleg af því að þá er ekki hægt fyrir Mbl að slá fram hverju sem er.

Leiðari Mbl 20. júlí sl. ber yfirskriftina „Myrkvuð umræða.“ Undirfyrirsögn er „Hinir „upplýstu“ gera hvað þeir geta til að kasta ryki í augu annarra.“ Miðað við málflutning leiðarans er þetta furðuleg fyrirsögn. Verið er að gera því skóna, að ESB-aðild hafi herskyldu í för með sér og tekið undir áhyggjur ungra bænda af því. Síðan eru kallaðir til vitnis þeir próf. Haraldur Ólafsson og Tryggvi Hjaltason öryggisfræðingur, sem báðir hafa nýlega skrifað greinar í Mbl. Haraldur skrifar um horfur á skyldu ESB-landa til hervæðingar. Tryggvi víkur m.a. að  aukinni samvinnu Evrópuþjóða í varnamálum, sem gæti leitt til sameiginlegs hers. Höfundur leiðarans telur þetta styðja hugmyndirnar um að aðild að ESB leiði til herskyldu.

Þarna er því miður mjög óupplýst umræða á ferð. Í nýlegri, ítarlegri skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál, skýrslu sem byggir á þekkingu vönduðustu sérfræðinga ráðuneytis hans, er bent á að með Lissabonsáttmálanum skapist ekki grundvöllur fyrir sameiginlegum her ESB. Til að skýra nánar ákvæði sáttmálans, sem snúa að sameiginlegum vörnum sambandsins, fékk Írland samþykkta yfirlýsingu, sem kveður á um að hverju ríki sé í sjálfsvald sett hvernig framlagi til sameiginlegra varna sé hagað og að aðildarríki eru ekki skuldbundin til að taka þátt í hernaðarlegum aðgerðum á vegum bandalagsins.

Hins vegar hefur ESB yfir að ráða hraðsveitum, skipuðum hermönnum aðildarríkja, sem vilja leggja þeim lið. Hlutverk þeirra er að stilla til friðar á óróasvæðum og þær hafa sinnt friðargæslu. Þeir stjórnmálamenn eru til, sem vilja auka þetta samstarf, en sameiginlegur her ESB er afar fjarlægt markmið.

Það hefur alla tíð legið skýrt fyrir, að ESB-aðild Íslands hefur engar hernaðarskyldur í för með sér, ekki frekar en vera okkar í NATO síðan 1949. Gangi Ísland til aðildar að ESB, ræður það því sjálft, svo sem hingað til, hvort það hefur her eða ekki. Því skal svo ekki gleymt, að aðeins sjö af 27 ríkjum í ESB hafa herskyldu.

Allt þetta ætti leiðarahöfundinum að vera kunnugt. Ef hann kynnir sér ekki þessi mál er hann vart fær um að vera í ábyrgðarstöðu á ritstjórn dagblaðs. Af því leiðir svo áleitna spurningu um sannleiksást, og sé hún ekki á hreinu, hverjir eru þá í „myrkvaðri umræðu“?

Lesendur Mbl hljóta að undrast, að leiðarahöfundur blaðsins skuli   kominn í lið með þeim, sem hafa uppi hræðsluáróður um hervæðingu Íslands, taki það þátt í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Mbl hafa um áratuga skeið látið slíkar ranghugmyndir og bábiljur hagga sér. Af hverju er sú stefna nú skyndilega breytt?

Eitt að lokum. Forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks leiddu okkur eins og blindingja út í blekkingavef einkavæðingar bankanna. Þeir hafa, ásamt forseta okkar, hafið víkinga fjármálanna til skýjanna. Allur sá skollaleikur hefur leitt hörmungar yfir þjóðina. Nú vilja sömu flokkar ráða fyrir okkur í ESB-málinu. Er nokkur furða þótt þeir séu allmargir sem vilja fá að taka bindið frá augunum og skoða sjálfir í upplýstri umræðu, hvaða kostir standa okkur til boða. Orð hinna stóðust ekki. Er það hvatning til að fylgja þeim nú?

Grein eftir séra Þóri Stephensen sem birtist áður í Morgunblaðinu þann 28. júlí 2010.