Í gær, þann 5. mars, kom Nicolai Wammen, Evrópumálaráðherra Danmerkur, til Íslands í tveggja daga vinnuheimsókn, en Danir fara nú með formennsku í Evrópusambandinu.

Samkvæmt vef Utanríkisráðuneytisins fundaði Wammen í gær með Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, en einnig hitti hann samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum við ESB.

Á fundi Wammens og Össurar í gær, gerði utanríkisráðherra grein fyrir stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB og lýsti þeim vilja íslenskra stjórnvalda að helstu hagsmunamál Íslands, sjávarútvegur, landbúnaður, byggðamál og myntsamstarf, yrðu tekin fyrir sem fyrst.

Þá ítrekaði Evrópumálaráðherrann stuðning Danmerkur við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Í dag hitti Wammen forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis. Heimsókninni lýkur í dag.