Í grein dagsins fjallar Árni Björn Guðjónsson, húsgagnasmíðameistari, um þá hluti sem hafa verið í deiglunni undanfarið varðandi Evrópumálin, eins og til dæmis friðarverðlaun Nóbels og ummæli fyrrum forsætisráðherra Frakklands. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Það voru fréttir í vikunni um að Evrópusambandið hefði fengið friðarverðlaun Nóbels. Þetta er ekkert smá skref og viðurkenning fyrir þetta samband sem við erum að sækja um aðild að.

Við sem höfum kynnt okkur þetta samband erum sannfærð um að  sambandið á þau verðlaun skilið. Ekki bara vegna friðarins heldur vegna stefnunnar um stöðugleika á sem flestum sviðum. Þó fjármálakerfið hafi leikið sambandið illa, þá heldur meginstefnan um betri leiðir á fjölmörgum sviðum, um mannréttindi og réttindi og skyldur atvinnulífsins.

Eftir að hafa heyrt ummæli fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, Michel Rochard, um að Ísland myndi einangrast ef við værum ekki með í sambandinu vekja athygli, og viðbrögð Katrínu Jakobsdóttur við ummælunum. Katrín sagðist ekki vera sammála fyrrverandi ráðherranum, án rökstuðnings.

Það er augljóst að ekki verða árekstrar ef við höfum sameiginlegar reglur. Við vitum betur, að framtíð einkaframtaks og íslensks efnahagslífs er bundið því að markaður Evrópusambandsins verði opinn án tolla og  skilyrða og með sameiginlegum reglum.

Eitt er það sem mætti greina frekar, en það eru lög og réttur. Það er, lög Evrópusambandsins miðað við lög Íslands. Spurningin er hvar skerast þessi lög og þessar reglur? Hvar skerast Evrópuréttur og þjóðarréttu Íslands? Hver er munurinn á að vera ríkisborgari Íslands eða vera Evrópuborgari? Sagt er í Noregi að þar séu reglurnar að mjög miklu leyti Evrópuréttur. Hvernig er staðan hér á Íslandi? Hver er munurinn? Það er nauðsynlegt að þetta sé skýrt. Hvað má á Íslandi en ekki i Evrópu og öfugt?

Sagt er að stjórnmálasamtök megi ekki auglýsa i  fjölmiðlum í Evrópu, en má það hér á landi? En hér auglýsir Sjálfstæðisflokkurinn í Ríkisútvarpinu, er það samkvæmt lögum Evrópu?

Í Evrópu eru 47 þjóðir en 27, bráðum 28, af þeim  eru í Evrópusambandinu. Hver er munurinn? Nauðsynlegt er að mismunun sé skýrð hvað snertir réttindi og skyldur, svo Íslendingar geti rætt um þetta í upplýstri umræðu.