Nóbelsnefnd norska Stórþingsins tilkynnti þann 12. október að Evrópusambandið mundi hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 2012.

Í gær, þann 10. desember tóku fulltrúar Evrópusambandsins við verðlaununum við mikla hátíð í Osló.

Formaður nóbelsverðlaunanefndarinnar, Thorbjørn Jagland, afhenti þremur leiðtogum sambandsins verðlaunin, þeim Herman Van Rompuy, forseta Leiðtogaráðsins, Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins.

Þá voru margir af leiðtogum Evrópu viðstaddir athöfnina, meðal annars Angela Merkel, Þýskalandskanslari, og François Hollande, forseti Frakklands.

Verðlaunin fær sambandið fyrir að breyta Evrópu úr „heimsálfu stríða til heimsálfu friðar.“ Þá var sérstaklega litið til þess að friður hefur haldist á milli Þýskalands og Frakklands, hvernig ESB tók Spáni, Portúgal og Grikklandi opnum örmum eftir fall einræðisstjórna og aðstoðaði við lýðræðisuppbyggingu í löndunum, sem og aðlögun ríkjanna á Balkanskaga að Evrópu eftir stríðsátökin þar á 10. áratug síðustu aldar.

Evrópusambandið hefur tilkynnt að verðlaunaféð mun fara í verkefni sem styðja við stríðshrjáð börn.

Hér er hægt að lesa nánar um fyrir hvað Evrópusambandið hlaut friðarverðlaun Nóbels: http://evropuvefur.is/svar.php?id=63438