Í grein dagsins fjallar Sæmundur E. Þorsteinsson, verkfræðingur, um þau réttindi sem Íslendingar hafa fengið með EES-samningnum, meðal annars til náms, sem nauðsynlegt er að tryggja með aðild að Evrópusambandinu og um leið opna fyrir ný tækifæri, meðal annars í nýsköpun. Þá bendir Sæmundur á að Evrópusambandið stendur fyrir ráðstefnu í nýsköpun í Brussel þann 5. desember, en hægt er að fylgjast með henni á netinu.

EES-samningurinn hefur verið í gildi síðan árið 1994 og valdið miklum breytingum, meðal annars á réttindum fólks til búsetu og tækifærum til náms og starfa. Áður en samningurinn gekk í gildi höfðu Íslendingar aðgang að vinnumarkaði Norðurlandanna og áttu auðvelt með að fara þangað til náms. Jafnframt þurfti strangt til tekið ekki að framvísa vegabréfi þegar ferðast var innan Norðurlandanna. EES- og Schengen samningarnir færðu okkur svipuð réttindi sem gilda um nærri allt EES svæðið, þ.e. lönd Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs og Lichtenstein. Frá hruni hafa um þrjú þúsund Íslendingar nýtt sér þessi réttindi með því að þiggja störf í Noregi auk margra sem hafa farið til annarra EES landa.

Þegar EES-samningurinn var í undirbúningi voru margir sem vildu ekki að Íslendingar nytu þessara réttinda. Öll Norðurlöndin stóðu að EES-samningnum og ljóst var að erfitt yrði að halda uppi sameiginlegum  vinnumarkaði og vegabréfaleysi meðal þeirra sem ekki yrðu aðilar að EES. Samt voru margir Íslendingar einarðlega á móti EES-samningnum og eru það enn, þ.m.t. málsmetandi og áhrifamiklir stjórnmálamenn. Að hluta til er þetta sama fólkið og berst nú með oddi og egg fyrir því að meina þjóðinni að taka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu.

Með EES-samningnum fengum við Íslendingar mörg tækifæri til mennta og rannsókna sem ekki buðust áður. Stúdentar nýta sér Erasmus áætlunina til að mennta sig í öðrum EES löndum um hríð og íslenskir vísindamenn hafa fengið fjármagn og náð rannsóknasamstarfi við aðra vísindamenn í Evrópu. Með samstarfinu hafa framlög til rannsókna margfaldast og stuðlað að stórtækum framförum háskólastarfs í landinu.  Samstarfið nær einnig til fleiri menningarþátta á borð við bókmenntir, kvikmyndagerð og aðrar listir og hefur auðgað menningu þjóðarinnar í hvívetna.

Mörg þessara réttinda og tækifæra þykja nú sjálfsögð en í raun hvíla þau öll á EES samningnum. Hann getur þó verið fallvaltur. Fréttir hafa nýlega borist frá Noregi um að þar heyrist nú raddir um að segja Noreg úr EES samstarfinu. Þetta myndi þýða endalok þess enda geta smáþjóðirnar Ísland og Lichtenstein ekki einar myndað aðra stoð samningsins.

Eina leið Íslendinga til þess að tryggja þau réttindi sem nú þykja sjálfsögð er að ganga í Evrópusambandið. Við inngöngu myndu ný tækifæri opnast fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Samkeppni í verslun myndi aukast vegna aukins frelsis og fengju landsmenn fullan aðgang að póstverslunum á borð við Amazon.co.uk. Þetta myndi draga úr hinu landlæga okri sem hér hefur ríkt svo lengi sem elstu menn muna. Athafnasemi og áræðni Íslendinga fengju enn fleiri birtingarform og aðgangur okkar að háskólum Evrópusambandsins yrði sá sami og aðrir ESB borgarar njóta.

Það er nærri óumdeilt að bætt kjör á Íslandi í framtíðinni byggjast á menntun og dug fólksins í landinu, þekkingu þess og nýsköpun. Evrópumálaráðherra Íra sem var hér í heimsókn nýlega sagði að framfarir Írlands myndu byggjast á þrennu, menntun, menntun og menntun. Þegar grannt er skoðað hefur lífskjarasókn undangenginna áratuga í raun verið byggð á tækniframförum, getu fólks til þess að nýta og tileinka sér nýja tækni. Þær þjóðir sem hafa skarað fram úr hafa jafnframt skapað þessa nýju tækni. Eina von Íslendinga til að taka þátt í tækniframförum og nýsköpun framtíðarinnar er með nánu samstarfi við aðrar þjóðir. Slíkt samstarf býðst okkur nú með inngöngu í Evrópusambandið. Klúðrum ekki því tækifæri.

Að lokum skal bent á að þann 5. og 6. desember nk. heldur Evrópusambandið nýsköpunarráðstefnu í Brussel. Á vefsíðu ráðstefnunnar kemur fram eftirfarandi skoðun:

„Research and innovation are the main motors for sustainable job creation and the only way to achieve a sustainable exit from the current economic crisis. This conference will bring together world leading experts in research and innovation to share their views on building a global innovation economy“.

Ekki þarf að fara til Brussel til að hlusta á helstu erindi ráðstefnunnar, það geta menn gert úr eigin sæti með því að fara á vefsíðuna http://webcast.ec.europa.eu. Ráðstefnan verður sett mánudaginn 5. desember kl. 13:00 að íslenskum tíma.