sajMikil umræða hefur skapast undanfarið um íslenska hestinn og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Já Ísland, skrifar að því tilefni grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 27. febrúar 2013, og svarar umdeildri grein sem birtist fyrst í Eiðfaxa í desember 2012. Greinina hennar Sigurlaugar má lesa hér að neðan.

Í desemberhefti Eiðfaxa skrifar Karola Schmeil undarlega grein sem ber heitið  „Evrópusambandið og íslenski hesturinn“.  Megin inntak greinarinnar er það að íslenska hestinum stafi af því sérstök hætta ef Ísland gangi í Evrópusambandið, aðallega vegna sjúkdóma sem kunna að berast hingað til lands og vegna blöndunar við önnur hestakyn. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða því það er ljóst að Íslendingar fara fram á varanlega sérlausn varðandi innflutning á lifandi dýrum til landsins og ekkert sem bendir til annars en að Evrópusambandið fallist á slíka sérlausn.

Hræðsluáróður

Gaman hefði verið að lesa grein um þau viðfangsefni sem hestamenn velta sérstaklega fyrir sér í sambandi við aðildarviðræður Íslands og ESB.  Grein sem hefði á faglegan og fræðandi hátt haft það að markmiði að upplýsa lesendur.  Þess í stað er grein Karolu hlutdræg,  gildishlaðin og augljóslega ætluð til að vekja hræðslu. Það er ekki að sjá að höfundur hafi kynnt sér viðfangsefnið sem fjallað er um.

Áfram bann á innflutningi lifandi dýra, fersku kjöti og plöntum

Ef samningsafstaða Íslands, frá því í desember 2012, í 12. kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði er skoðuð, sést að farið er fram á að viðhaldið verði banni við innflutningi lifandi dýra, að löggjöf ESB um dýraheilbrigði og um viðskipti með lifandi dýr gildi ekki að því er varðar Ísland. Sérfræðingar á þessu sviði telja líklegt að fallist verði á slíka sérlausn fyrir Ísland vegna sérstöðu landsins á þessu sviði, komi fyrir því sterk vísindaleg rök. Hins vegar er ljóst að einungis fullbúinn samningur milli Íslands og ESB getur endanlega sagt til um hvort fallist verði á afstöðu Íslands í málinu. Einnig er farið fram á áframhaldandi bann við innflutningi fersks kjöts og plantna.

Sóknarfæri fyrir íslenskan matvælaiðnað

Íslenskir búfjárstofnar eru viðkvæmir vegna legu landsins og einangrunar og tekist hefur að miklu leyti að halda sjúkdómum í skefjum.  Þetta er sérstakt afrek og eftirsóknarvert að viðhalda. Sjúkdóma- og lyfjalausar íslenskar kjötvörur eru einmitt sérstaða og sóknarfæri fyrir íslenskan matvælaiðnað við inngöngu Íslands í ESB. Þess vegna þurfum við að láta á það reyna að semja þannig við ESB að þeir hagsmunir verði tryggðir.

Líkleg sérlausn

Í greininni er fullyrt að undanþágur hjá ESB séu oftast tímabundnar, látnar gilda meðan umsóknarlandið er að aðlagast sambandinu og á endanum falli þær úr gildi.  Þetta er algengur misskilningur. Gera þarf greinarmun á undanþágum og sérlausnum.  Hefði greinarhöfundur kynnt sér viðfangefnið hefði komið í ljós að undanþágur eru í eðli sínu tímabundnar en í aðildarsamningi flestra þjóða eru varanlegar sérlausnir. Um það eru fjölmörg dæmi eins og um sumarhúsakaup í Danmörku, bómullarrækt í Grikklandi, sjávarútveg á Möltu og Lettlandi, sænska snúsið, finnsku skógana og um landbúnað norðan 62. breiddargráðu.

Blöndun kynja eða stýrt val?

Í greininni er látið í það skína að blöndun hrossakynja verði vandamál við inngöngu í ESB. Það vita það allir hestamenn að íslenski hrossastofninn fjölgar sér ekki frjálst og eftirlitslaust í íslenskum sveitum. Það gera heldur ekki hundar. Íslenski hundurinn þrífst hér ásamt fjölmörgum öðrum hundakynum með góðum árangri. Þarna er um að ræða stýrt val sem við munum hafa fulla stjórn á, hér eftir sem hingað til. Blöndun íslenska hrossakynsins við önnur kyn verður því ekki nema íslenskir hrossabændur kæri sig um það og heimildir fyrir slíku fáist.

Íslenski hesturinn er einstakt menningarfyrirbæri

Sú sem þetta ritar er hestakona, mikill unnandi íslenska hestsins og tekur fyllilega undir orð Karolu þegar hún skrifar „það skiptir ekki máli hvort við tökum tillit til sögulegra eða náttúrulegra aðstæðna. Íslenski hesturinn er einstakt menningarfyrirbæri sem skóp, í gegnum árhundruðin, sérstakt samspil á milli náttúru landsins og þjóðarinnar sem þar býr.“  Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekki nokkur Íslendingur sem kæri sig um að glata þeim menningarverðmætum!