Í grein dagsins fjallar Árni Björn, húsgagnasmíðameistari, um þann vanda sem ríki Evrópu standa frammi fyrir þessa dagana vegna þeirra vinnubragða sem hafa viðgengist og að Evrópusambandið sé lausnin, til að mynda fyrir Ísland, en þar sé unnið saman að því að leysa vandann. Framtíð okkar Íslendinga sé því í Evrópusambandinu. Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Það  er auðséð að stefna Ankelu Merkel, kanslara Þýskalands, er rétt. Sterkari tök sambandsins á fjármálum aðilarríkjanna er bæði eðlileg og nauðsynleg eftir óráðssíu margra ríkja, sérstaklega í Suður-Evrópu, sem hefur stofnað efnahagslegu sjálfstæði þeirra  í voða. Ísland er ekki nein undantekning frá þessari óráðsíu, orðið sjálfbærni gleymdist og allir voru samþykkir því að hægt væri að reka efnahag þjóða með eintómum lánum og gríðarlegum viðskiptahalla, eyðsla var einkunnarorðið og mældist hagvöxtur eftir því sem meira var eitt. Því miður var þetta lensa um allan hinn vestræna heim og  gert í nafni frelsishugsunar þar sem engin takmörk mátti setja við athafnasemi í þessu kerfi. Hugmyndin um fjármálamiðstöð heimsins á Íslandi var  mikið til umræðu og virtust flestir ráðamenn halda að það væri draumur sem gæti ræst.

Í ríkjum Suður-Evrópu var þetta því miður látið afskiptalaust af Evrópusambandinu þangað til allt var að komast í hönk hjá þessum ríkjum vegna endalausrar eyðslu og skuldasöfnunar. Evrunni hefur verið kennt um þar en það er fáránleg afstaða því efnahagsstjórn þessara ríkja var auðvitað mikið ábótavant þar sem skynsamir menn máttu sjá að ekki væri hægt að greiða niður þessar skuldir í náinni framtíð. Allt efnahags- og fjármálakerfi í hinum Vestræna heimi var rekið eins og um ræningjasveit væri að ræða. Himinháar bónusgreiðslur í fjármálakerfunum voru eins og glæpahóparnir unnu í Suður-Ameríku á sínum tíma.

Stærstu mál framtíðarinnar er að endurskipuleggja alla fjármálastarfsemi í heiminum. Þessi starfsemi þarf að vera fyrir fólkið og atvinnulífið en ekki fyrir einhverja ræningjaflokka. Evrópusambandið er lausnin. Þar eru góðir menn á ferð. Stöðugleiki og sjálfbærni er svarið en burðir einstakra ríkja í að koma því á eru ekki raunhæfir eins og sakir standa nema fyrir atbeina Evrópusambandsins. Fjármála- og efnahagsráðherrar ríkjanna verða að fara í endurhæfingu og læra að rikin verða að standa saman að koma á jafnvægi á efnahag ríkjanna og einkunnarorðið verður að vera eyða ekki meira en aflað er.

Það er þvi nauðsynlegt að ríkin, þar á meðal Ísland, geti notað innri markað Evrópu til að þróa vörur og nýta tollfrjálsa markaðinn til að koma sínum vörum til neytenda og aflað fjárs. Stöðugleikinn er lausnarorðið til framtíðar. Undirstaða efnahags hverrar þjóðar er nýsköpun og markaður. Fyrir Ísland er þetta gríðarleg nauðsyn til framtíðar að geta unnið úr hráefni til matvælaframleiðslu og komið þeim á tollfrjálsan markað Evrópu, sem og annarra markaða líka. Ekkert vit er í þvi að þeir sem kaupa frystan makríl í Evrópu frá Íslandi þurfa að borga 20% toll eins og staðan er í dag. Hér eru Íslendingar í einangrun sem kemur niður á hagvexti okkar sem og takmörkun á sölumöguleikum. Þess vegna verðum við að vera með í að endurbyggja í Evrópu stöðugleika og eðlilegan hagvöxt. ESB er framtíðin.