Í dag, þann 25. nóvember, hélt Benedikt Jóhannesson hjá Talnakönnun, erindi á opnum fundi um efnahagsmál, evruna og krónuna á Akureyri. Fundurinn var vel sóttur og kom margt áhugavert fram á fundinum.

Það vakti athygli að Benedikt nefndi að það væri ekkert nýtt að Evrópuandstæðingar byðu sig fram til formanns í Sjálfstæðisflokknum. Evrópusinni hefði ekki verið kosinn til formennsku í flokknum síðan Davíð varð formaður vorið 1991.

Davíð var formaður nefndar í Sjálfstæðisflokknum sem lét frá sér álit þar sem sagði:

  • Þjóðin hlýtur að setja sér það mark að aldrei aftur þurfi þessi þjóð að hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar. Líklegt er að smæð þjóðarinnar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við margar hefðbundnar vinaþjóðir.
  • Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að Íslendingar séu sjálfir að búa sér til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja eigin samningsstöðu er menn mæta með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópusambandið.
  • Þjóðin má síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, altekin af ótta og kjarkleysi. Hún verður að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hlýtur þjóðin að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúin til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.

Þann 22. febrúar árið 1992 hitti Davíð Oddsson síðan Margréti Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta. Davíð hafði áður hvatt til Evrópusamvinnu Íslands og sagði meðal annars árið 1990: „Það er skoðun mín að stærsta áskorun okkar á  stjórnmálasviðinu á næstu árum sé hvernig við varðveitum stöðu okkar í breytilegum heimi; Við verðum að laga okkur að þeirri staðreynd að meirihluti af viðskiptum okkar er við EB löndin. Ég hef opinberlega talað fyrir því að við ættum að sækja um aðild. Takmark okkar hlýtur að vera heilbrigt og vaxandi hagkerfi, stöðugur gjaldmiðill og sterkt atvinnulíf einstaklinga.“ Eftir þennan fund með Thatcher snerist íslenski forsætisráðherrann og tók aðildarumsókn af dagskrá.