Umræðan um ESB hefst af fullum krafti á nýju ári. Hér að neðan má finna nokkrar af þeim greinum og fréttaskýringum sem birst hafa á miðlunum fyrstu dagana á nýju ári.

Þann 4. janúar birtist greinin Samningar og sérlausnir eftir Andrés Pétursson, formann Evrópusamtakanna, í Fréttablaðinu. Í greininni fjallar Andrés um samningaviðræðurnar, ferlið í kringum þær og sérlausnir sem ríki hafa fengið í viðræðum. Andrés segir meðal annars:

„Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu fara nú hamförum í áróðri sínum gegn aðildarviðræðunum sem nú standa yfir. Af einhverjum ástæðum þykjast sumir þeirra geta túlkað viðræðurnar sem einstefnuakrein þar sem Ísland eigi litla eða enga möguleika á því að hafa áhrif á þann samning sem í boði verður. Maður kippir sér í sjálfu sér ekki upp við að misvel upplýstir bloggarar fari stundum með staðlausa stafi í þessu máli. En þegar aðilar sem eiga að vera ábyrgir, eins og ritstjórar blaða og formenn einstakra stjórnmálaflokka, gera slíkt hið sama er nauðsynlegt að leiðrétta það lýðskrum og afbakaðar staðreyndir sem þessir aðilar hafa borið á borð fyrir landsmenn á undanförnum misserum.“

Greinina má lesa í heild sinni hér: http://visir.is/samningar-og-serlausnir/article/2013701049977

Sama dag birtist önnur grein um samningaviðræðurnar við ESB í Fréttablaðinu eftir Þröst Ólafsson, hagfræðing, þar sem segir meðal annars:

„Mér gremst fátt jafnmikið og þegar fólk gefur sér niðurstöðu úr óorðnum atvikum fyrir fram; tala nú ekki um þegar um samningaviðræður er að ræða. Enginn veit fyrir fram hvað út úr fjölþjóðlegum samningaviðræðum kemur. Stundum kemur heilmikið, eins og t.d. bæði úr viðræðum okkar um EES og jafnvel við inngöngu okkar í NATO. Í báðum tilvikum fengum við varanlegar undanþágur. Í EFTA-viðræðunum drógum við þó nokkrar undanþágur að landi. Þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar var engin undanþága í boði. Allar þjóðir sem gengið hafa í ESB hafa fengið undanþágur frá meginregluverki sambandsins, ýmist tímabundnar eða varanlegar, allt eftir því hve mikilvægur viðkomandi málaflokkur var hverri þjóð. Hver niðurstaðan verður hjá okkur get hvorki ég né aðrir fullyrt neitt um. Það er hins vegar afar ólíklegt að þær verði ekki einhverjar. Hvaða máli þær muni skipta okkur, þegar upp er staðið, er svo annað mál.“

Greinina eftir Þröst má lesa hér: http://www.visir.is/af-hverju-undanthagur-fra-esb-reglum-/article/2013701049989

Helgarblað Fréttatímans birti síðan þann 4.janúar áhugaverða fréttaskýringu um „Bankabandalagið“ sem samkomulag hefur náðst um í ESB. Blaðið ræðir við Karel Lannoo, sérfræðing á svið evrópskra fjármála, bæði fjármálastefnu og fjármálaeftirlits. Hann segir þetta samkomulag hafa róað markaði í Evrópu undanfarna sex mánuði og að samkomulagið sé þýðingarmikið.

Hér má lesa fréttaskýringuna í heild sinni: http://www.frettatiminn.is/frettir/bankabandalagid_var_sprengjuvarpan_sem_dugdi/

Í dag, þann 7. janúar, bloggar Sema Erla, Evrópufræðingur, svo um tíu ástæður fyrir því að Ísland eigi að ganga í ESB, en þar fjallar hún meðal annars um matvælaverð, vexti, evru, fullveldi og aukin atvinnutækifæri.

Hér er bloggið í heild sinni: http://www.dv.is/blogg/sema-erla/2013/1/7/tiu-godar-astaedur-fyrir-thvi-ad-island-eigi-ad-ganga-i-esb/