Forseti Alþingis opnaði Evrópuvef Háskólans og Alþingis fimmtudaginn 23. júní kl. 13 á Háskólatorgi. Stofnað var til vefsins með þjónustusamningi milli Alþingis og Vísindavefsins og hann starfar í nánum tengslum við Vísindavefinn. Fjármagn til Evrópuvefsins kemur frá Alþingi. Tilgangur Evrópuvefsins er að veita hlutlægar, málefnalegar og trúverðugar upplýsingar, meðal annars um:

  1. Aðdraganda og sögu Evrópusambandsins og undanfara þess
  2. Löggjöf og réttarframkvæmd í ESB
  3. Skipulag og stjórnsýslu ESB
  4. Stefnu og áætlanir ESB
  5. Aðildarríki ESB og afstöðu þeirra til einstakra málaflokka
  6. Aðildarumsókn Íslands, sbr. þingsályktun Alþingis frá 16. júlí 2009, og hugsanleg áhrif af aðild Íslands að ESB ef af henni verður.

Starfsmenn Evrópuvefsins semja svör eftir atvikum, afla svara frá öðrum höfundum, lesa efni vefsins yfir fyrir birtingu, tryggja samræmi í frágangi svara, sjá um birtingu athugasemda frá lesendum, og svo framvegis.

Aðalritstjóri Evrópuvefsins er Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor emeritus í vísindasögu og eðlisfræði, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010. Aðrir starfsmenn eru Vilborg Ása Guðjónsdóttir MA í alþjóðasamskiptum og Þórhildur Hagalín MA í Evrópufræðum. Í ritstjórn eru auk ritstjóra þau Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, Margrét Einarsdóttir lögfræðingur og Sverrir Jakobsson sagnfræðingur. Framkvæmdastjóri Evrópuvefsins er Jón Gunnar Þorsteinsson ritstjóri Vísindavefsins. Vefstjóri Evrópuvefsins er Guðmundur Daði Haraldsson.