Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þann 21. janúar 2013, um Evrusvæðið. Í upphafi greinarinnar segir Össur:

„Fjárfestar eru á ný að öðlast traust á evrusvæðinu. Nýleg könnun meðal tæplega átta hundruð fjárfesta sýndi að þeir telja nú evrusvæðið komið yfir það versta í efnahagserfiðleikum sínum. Það er í samræmi við æ fleiri teikn um að evrusvæðið sé að rétta úr kútnum. Skammtímatölur eru allar í rétta átt. Í upphafi árs lýsti Christine Lagarde, forstjóri AGS, því yfir að Portúgal væri komið á beinu brautina. Írland er á jákvæðri leið sem allir þekkja. Á Ítalíu er bankakerfið á mun traustari grunni en menn töldu. Traust forysta Marios Monti, fráfarandi forsætisráðherra, hefur komið fjötri á skuldir ítalska ríkisins. Þó hafa mest kaflaskil orðið í Grikklandsfárinu, sem misserum saman var notað til að spá kafsiglingu evrunnar. Annað varð uppi. Föst viðspyrna Grikkja með einbeittri liðsemd Evrópusambandsins leiddi til að fyrir skömmu hækkuðu matsfyrirtæki lánshæfismat Grikklands um heila sex flokka. Nýjasta hagspá Evrópusambandsins undirstrikar þetta með því að spá efnahagsbata á þessu og næsta ári. Duttu svo dauðar lýs úr hári margra þegar Morgunblaðið birti frétt um að nú sæi fyrir endann á erfiðleikum evrusvæðisins. Blaðið hefur þó með aðdáunarverðri reglusemi spáð yfirvofandi andláti evrunnar – ef ekki í þessari viku, þá örugglega hinni næstu.“

Þá bendir Össur á að evran hafi styrkst:

„Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, sem náði hámarki haustið 2008, stigu aðildarríki Evrópusambandsins harða glímu við margvíslega erfiðleika. Þá mátti að nokkru rekja til inngróinna veikleika í reglu- og stofnanaumgjörð evrusvæðisins. Duldist þó fáum að stór hluti vandans lá í langvarandi agaleysi í opinberum fjármálum ýmissa evruríkja. Evrusvæðið hefur því fyrst og fremst glímt við ríkisfjármála- og bankakreppu í sumum aðildarríkjum. En evruríkin eiga hins vegar ekki við gjaldeyris- eða gjaldmiðilskreppu að stríða.
Þannig hefur evran sem gjaldmiðill haldið styrk sínum á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum frá því fjármálakreppan skall á og löngu fyrr.“

Í lok greinarinnar fjallar Össur svo um stöðu Íslands:

„Með umsókn sinni um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru er því langt í frá að Ísland væri á leið í ?brennandi hús?. Þvert á móti hefur þátttaka Íslands í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu með sameiginlegum gjaldmiðli aldrei verið brýnni en nú. Hún færir okkur aga, eftirlit og stuðning við hagstjórn sem við þurfum sárlega á að halda. Um leið fæst stöðugleiki í peningamálum, sem ætíð hefur skort hér á landi. Þátttaka í myntbandalagi með sameiginlegum gjaldmiðli mun þar að auki færa með sér umtalsverðan efnahagslegan ávinning í formi lægri vaxta, lægra verðlags og minni verðbólgu. Reynsla annarra smáþjóða sýnir að um leið munu fjárfestingar aukast samfara auknum útflutningi og hagvexti.

Hafi erfiðleikar á evrusvæðinu einhvern tíma verið rök gegn umsókn um aðild að Evrópusambandinu eru þau rök haldlaus í dag.“