Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, svaraði nýlega fyrirspurn Baldurs Þórhallssonar varaþingmanns, sem snerist um IPA-landsáætluninafyrir árið 2011. IPA-styrkir eru veittir hverju umsóknarríki til að standa straum af kostnaði við umsókn þess um aðild að sambandinu og að gera stjórnsýslu þess í stakk búna að takast á við umsóknarferlið.

Í svari Össurar kom m.a. fram að stuðningur ESB kemur til með að felast í sérfræðiaðstoð, en einnig vilja stjórnvöld að ákveðnar stofnanir geti bætt við sig starfsmönnum og læri um evrópska stjórnsýslu, styrkjakerfi og fleira. Utanríkisráðherra áréttar í svari sínu að öll verkefnin séu valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að Evrópusambandinu.

Heildarfjárhæðin sem ætluð er Íslandi í IPA-styrki eru 30 milljónir evra eða nærri fimm milljarðar króna.  Upphæðin dreifist á árin 2011 til 2013. Bætt hagskýrslugerð, aukið matvælaöryggi, kortlagning fuglalífs og þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið eru meðal verkefna sem stjórnvöld vilja að Evrópusambandið styrki vegna umsóknar landsins um aðild að ESB.

Í tillögu Íslands að IPA-landsáætlun 2011 er eftirfarandi lagt til:

  • Hagstofan verði styrkt til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga en skortur á mikilvægum hagtölum á ýmsum sviðum veldur erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina.
  • Matís fái styrk til að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi sem hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi sem hluti af skuldbindingum í gegnum EES.
  • Náttúrufræðistofnun fái styrk til að kortleggja vistkerfi og fuglalíf á Íslandi með það fyrir augum að auðkenna þau svæði sem þarfnast verndunar.
  • Þýðingamiðstöð fái styrk til að standa að þýðingu á regluverki Evrópusambandsins á íslensku. Hluta af stuðningnum er ætlað að styrkja tækjakaup við nýja námsbraut fyrir ráðstefnutúlka við HÍ.
  • Skrifstofa landstengiliðs verði styrkt en hún annast samræmingu og miðlun styrkja til að byggja upp frekari þekkingu á stuðningi Evrópusambandsins á sviði byggðamála og atvinnuuppbyggingar.
  • Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fái styrk til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun með því að þróa raunfærnimat.
  • Háskólafélag Suðurlands fái styrk til að vinna að verkefninu Katla Jarðvangur. Verkefnið felur m.a. í sér þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið og uppbyggingu á þekkingarsetri um svæðið.

Sjá svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Baldurs Þórhallssonar um IPA-landsáætlun.