Í dag, þann 28. september var fundur í Háskóla Íslands þar sem yfirskriftin var „Er skynsamlegt að leggja aðildarumsókn Íslands að ESB til hliðar?“.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði þar um að rangt hafi veirð staðið að umsókninni frá upphafi og að málið sé í blindgötu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að leggja ætti umsóknina á ís í allt að tvö ár meðan Ísland tæki til í sínum málum.

Í máli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, kom fram að hann væri andvígur því að draga aðildarumsókn Íslands að ESB tilbaka, því slíkt þjónaði engum, hvorki þeim sem hafa tekið afstöðu með eða á móti aðild né þeim sem hafa ekki enn gert upp hug sinn.

Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar, tók undir með Steingrími og taldi það ekki rétt að draga umsóknina tilbaka. Hún bætti því svo við að engin þjóð hefur verið einhuga um að ganga í Evrópusambandið. Skiptar skoðanir um málið eru því ekki rök fyrir því að Ísland megi ekki sækja um aðild. Valgerður sagði að andstæðingar aðildar töluðu mikið um að málið væri í ógöngum, en sagði það ekki vera rétt, samningaviðræður gengu vel og samninganefnd Íslands hefði alls staðar fengið hrós fyrir vandaðan undirbúning viðræðna.

Nánar er fjallað um fundinn á helstu vefmiðlunum í dag.