Fátt fer meira í taugarnar á okkur Íslendingum en þegar farið er rangt með staðreyndir um siði okkar og háttu. Ekki er betra ef því er fléttað saman við háð og spott og gefið í skyn að við stígum ekki í vitið. Um aldir höfum við orðið fyrir barðinu á misgáfulegum sögum sem um okkur hafa gengið. Vel má viðurkenna að margar þeirra eru sprenghlægilegar.

Í þessu ljósi er í hæsta máta spaugilegt hve greiðan aðgang samkynja furðusögur um starfsemi og reglur Evrópusambandsins virðast eiga að eyrum margra Íslendinga og hve margir trúa þeim eins og heilögum sannleika. Andstæðingar aðildar Íslands að ESB hafa áttað sig á þessum veikleika landans og leika nú á margan manninn með því að dreifa margskonar flökku- og ýkjusögum. Flestar þeirra eru hreinn skáldskapur en aðrar eru af þeirri ætt sagna þar sem ein fjöður getur á augabragði orðið að fimm hænum.

Í Vísbendingu, sem kom út skömmu fyrir áramót, er nokkrum sögum af þessu tagi gerð skil. Þar er fjallað um sögur af smokkum, gúrkum, Coca Puffs og Evrópuher. Þær eru bara brot af þeim sagnaflokki sem til er og sífellt finna furðusagnahöfundar upp á nýjum til að koma á flot.

Það má vel hafa gaman af mörgum þessum sögum en vonandi tekur enginn afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu á grundvelli þeirra.