Kæru vinir og félagar, ég verð að byrja á því að hrósa ykkur fyrir frábært landsmót, það er svo sannarlega ekki hægt að taka því sem sjálfsögðum hlut að vera á meðal svona margra ungra evrópusinna    …  sérstaklega ef þú kemur frá Íslandi.

Ungir evrópusinnar voru stofnaðir á Íslandi í september árið 2009 sem gerir okkur sex mánaða gömul. Á þessum sex mánuðum höfum við stækkað frá sex meðlimum í næstum tvö hundruð. Á þessum sex mánuðum höfum við birt greinar í dagblöðum, við höfum gert okkar eigið fréttabréf, við héldum jólaglögg með sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, en á þeim tíma fóru Svíar með forsætið í Evrópusambandinu. Við héldum síðan mjög vel heppnaðan Evrópuskóla fyrir nokkrum vikum þar sem okkar helstu prófessorar í Evrópumálum sáu um kennslu, ásamt fyrrum forsætis- og utanríkisráðherra. Síðast en ekki síst stóðum við fyrir fögnuði fyrir stuttu eftir að Brussel gaf grænt ljós á aðildarviðræður við Ísland.

Að sjálfsögðu væri þetta allt mun skemmtilegra ef við hefðum meira en 25% stuðning við aðild að Evrópusambandinu á Íslandi.

Í lok ársins 2001 var 25% af þjóðinni á móti aðild að Evrópusambandinu. Árið 2008 var þessi tala ennþá undir 40%. Núna, árið 2010, eru 60% af þjóðinni á móti því að ganga í Evrópusambandið. Síðustu ár hefur stuðningurinn við Evrópusambandið ávallt verið á milli 40 og 50%. Hins vegar hefur stuðningurinn við það að sækja um aðild og semja við Evrópusambandið ávallt verið hærri, og hefur ekki farið niður fyrir 50% síðustu ár. Núna þegar við höfum hins vegar sótt um aðild og aðildarviðræður gætu hafist fljótlega höfum við ekki nema 25% stuðning við aðild íslands að Evrópusambandinu.

Svo hvað gerðist?

Sumir segja að ástæðan fyrir því að stuðningurinn hefur hrapað sé sú að umræðan um Evrópusambandið hefur verið mjög neikvæð og hefur verið stjórnað af “staðreyndum” eins og þeim að ríki Evrópusambandsins munu stela öllum fisknum okkar, eða að það mun ekki verða neinn landbúnaður á Íslandi eftir að við göngum í Evrópusambandið, eða þeirri sem virðist vera í uppáhaldi þessa dagana hjá NEI-hreyfingunni; að við munum neyðast til þess að senda börnin okkar í her Evrópusambandsins.

Margir virðast hins vegar vera sammála um að ástæðan fyrir litlum stuðningi við aðild að Evrópusambandinu sé Icesave-deilan sem við stöndum í. Icesave-deilan hefur nú staðið í meira en ár og er enn óleyst. Á þessum sama tíma hefur stuðningurinn við aðild fallið. Almenningur á Íslandi telur Breta og Hollendinga vera óvini sína (sem má skilja að sumu leyti, til dæmis sú frábæra hugmynd Gordons Brown að nota hryðjuverkalög gegn Íslandi), og hver vill ganga í bandalag með óvinum sínum? Við vitum nú öll svarið við því.

Við munum hins vegar ekki gefast upp svo auðveldlega. Þrátt fyrir að umhverfið í kringum aðild sé frekar neikvætt og leiðinlegt þessa dagana, og Icesave-deilann enn óleyst (en margir áttu vona á því að henni myndi vera lokið núna) og þrátt fyrir að umræðan snúist að öllu leyti um Icesave og hin vondu aðildarríki Evrópusambandsins, munum við ekki hætta. Því við í Ungum evrópusinnum og öðrum Evrópuhreyfingum á Íslandi trúum því að hagsmunum Íslands geti verið best borgið með aðild að Evrópusambandinu og að það sé mikilvægt fyrir Ísland að styrkja samvinnu sína við ríki Evrópu hvort sem það er á efnahagslegum-, pólitískum-. félagslegum- eða menningarlegum vettvangi, og að nauðsynlegt sé að rödd Íslands heyrist í álfunni.

Svo hvað er næst?

Leiðtogar Evrópusambandsins munu hittast í lok mánaðarins og munu þeir meðal annars ræða umsókn Íslands og taka ákvörðun um hvort hefja eigi aðildarviðræður milli Íslands og sambandsins. Það eru nokkrir hlutir sem gætu gerst:

  • Bretar gætu komið í veg fyrir að aðildarviðræður hefjist.
  • Hollendingar gætu komið í veg fyrir að aðildarviðræður hefjist.
  • Svo gæti farið að þýska Bundestag-ið (þýska þingið) verði ekki búið að ræða málið áður en fundur Leiðtoganna hefst.
  • Frakkar gætu átt í pólitískri krísu sökum frétta af skilnaði forsetans, og ekki mætt!

Ef ekkert af ofangreindu gerist gætu aðildarviðræður hafist seinna á þessu ári. Ef eitthvað af ofangreindu gerist munum við þurfa að bíða lengur þar til aðildarviðræður gætu hafist. Við munum hins vegar ekki sitja aðgerðarlaus á meðan.

Við þurfum að opna umræðuna um Evrópusambandið og reyna að taka hana á hærra plan. Við þurfum umræðu sem byggist á hreinskilni go staðreyndum. Við þurfum að upplýsa fólk um Evrópusambandið og byggja upp skilning á því hvað Evrópusambandið er og hvað það gerir. Við þurfum að minnka fordómana sem umkringja umræðuna. Við þurfum að sýna fólki að Evrópusambandið er bandalag sem byggist á friði og samstöðu, að þetta sé bandalag 27 ríkja með 500 milljón íbúa sem vinna saman að frelsi, mannréttindum, þróunaraðstoð, kvenréttindum, jafnrétti, umhverfisvernd, menntun og atvinnu. Þetta er það sem Evrópusambandið stendur fyrir og hver vill ekki verða hluti af þessu?

Við þurfum að útskýra fyrir fólki að ríki Evrópusambandsins eru ekki að fara að stela fisknum okkar og að Evrópusambandið sé ekki að fara að eyðileggja íslenskan landbúnað og að við erum ekki að fara að senda börnin okkar í ímyndaðan her Evrópusambandsins. Ef börnin mín munu hins vegar eiga þann möguleika að taka þátt í friðargæsluverkefni með Evrópusambandinu, eða geta aðstoðað við að vernda og dreifa mannréttindum í heiminum, mun ég verða stolt!

Svo þrátt fyrir að Evrópusambandssólin skín ekki á Íslandi þessa dagana, eða að minnsta kosti einungis 25% af henni munum við halda áfram að berjast og vera virk því við erum framtíðin, og framtíðin sem við viljum er innan Evrópusambandsins.

Takk fyrir!

Sema Erla Sedar, formaður Ungra Evrópusinna á Íslandi