„Nú er búið að leggja aðildarviðræður Íslands við ESB til hliðar og það sem meiru máli skiptir er að það virðist ekki hafa komið nein skýr framtíðarsýn í efnahagsmálum í hennar stað“,  segir Georg Brynjarsson hagfræðingur BHM.

Georg_BHM„Þannig að ég skil svo sem vel hina fjölmörgu forystumenn í atvinnulífinu sem kalla eftir því að aðildarviðræðum við ESB sé haldið áfram, enda verði niðurstaðan hvort sem er lögð í dóm kjósenda. Það hefur skapast hér nokkurs konar tómarúm og það er hætt við að menn ætli sér að reyna að leysa efnahagsvandamálin með sömu gömlu aðferðunum og hingað til, sem ég á erfitt með að sjá að virki núna frekar en áður. Við þurfum allavega einhverja framtíðarsýn, það er ljóst.“

„Dæmin sanna að fjárfesting hefur aukist verulega í tilvonandi aðildarríkjum ESB, en þess háttar skýra framtíðarsýn varðandi fjárfestingu skortir hérlendis. Við höfum ekki efni á því að einangrast enn frekar, til dæmis með því að líkja erlendri fjárfestingu við skuldsetningu og viðhafa langvarandi óvissu um eignir erlendra aðila hérlendis. Svo gilda auðvitað alveg sömu rök um vinnumarkaðinn. Íslenskur vinnumarkaður er í harðri samkeppni við hinn evrópska og við verðum að standa okkur í þeirri samkeppni. Þessa samkeppni eigum við að líta á sem tækifæri og vera víðsýn þegar við leggjum á ráðin um að gera Ísland samkeppnishæft við nágrannaríkin. Þar eru atriði eins og opnun markaða, samkeppnishæf mynt, niðurfelling tolla og alþjóðlegt umhverfi lykilatriði til að eiga einhverja möguleika til framtíðar.“

„Spár um að lágar launahækkanir næstu kjarasamninga muni leiða til aukins kaupmáttar til lengri tíma byggja nefnilega á því að taka sénsinn á því að þróun gengis og verðlags og þar með vaxta, verði á grundvelli raunhagkerfisins, en ekki þess mikla ójafnvægis sem er á fjármálamörkuðum vegna áhrifa fjármagnshafta og þungrar greiðslubyrði erlendra lána. Hvernig krónunni reiðir af í þeim ólgusjó sem fram undan er hefur því úrslitaáhrif á kaupmátt eftir næstu kjarasamninga. Að þessu sögðu finnst mér blasa við að umræður um íslensku krónuna séu í raun hinar eiginlegu kjaraviðræður almennings í landinu.“

Viðtalið í heild sinni í kynningarblaði um stéttarfélög sem fylgdi Fréttablaðinu 22. nóvember 2013.