Í gær kom út önnur framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarferli Íslands. Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, kynnti skýrsluna og sagði hana undirstrika jákvæða þróun.

Helstu punktar skýrslunnar eru að Ísland er talið uppfylla mörg skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu, en það er að mestu vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og þáttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Fram kemur í skýrslunni að Ísland uppfylli pólitísk skilyrði fyrir aðild og er áhersla lögð á að Ísland hafi nú þegar styrkt regluverk sitt gegn spillingu og hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni. Varðandi efnahagsskilyrðin fyrir aðild segir í skýrslunni að Ísland ætti að geta staðið sig innan regluverks sambandsins svo lengi sem umbætur til styrktar efnahagslífinu haldi áfram hérlendis.

Þá eru talin upp erfiðustu samningsmálin milli Íslands og Evrópusambandsins og er landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og hvalveiðar meðal þess sem er nefnt.

Samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins halda áfram í Brussel í næstu viku.

Nánar má lesa um skýrsluna í Fréttablaðinu í dag.