Svavar Gestsson fyrrum ráðherra og sendiherra var gestur þáttarins ,,Framtíð lýðræðis” á RÚV. sunnudaginn 22. ágúst og komst svo að orði að sér fyndist ,,evrópuumræðan ekki nægilega alvarleg og vönduð”.

Þetta voru orð í tíma töluð og alveg í samræmi við ásetning okkar sem tengjumst hreyfingunni Sterkara Ísland. Á heimasíðu hreyfingarinnar höfum við sett fram einskonar tilmæli til þeirra er styðja aðildarumsókn Íslands um að þeir vandi sig í umræðunni og gæti hófs í skrifum og tali um andstæðar skoðanir.

Nú veit ég ekki nákvæmlega við hverja Svavar átti þegar hann felldi dóm sinn um umræðuna. Eflaust eigum við aðildarsinnar eitthvað í þessum ummælum. Ég hef þó ekki rekist á ummæli frá okkur sem jafnast á við orðanotkun þar sem óhugnanlegum hugtökum frá Hitlerstímanum var klínt á okkur aðildarsinna, eða ásakanir um landráð sem framkvæmdastjóri Heimssýnar eignaði framkvæmdastjóra Sterkara Íslands. Sú ásökun er vissulega mjög alvarleg en örugglega var það ekki sá alvarleiki sem Svavar lýsti eftir.

Það er einlæg von okkar sem tilheyrum Sterkara Íslandi að í hönd fari vandaðri umræða um Evrópumálin þar sem rök fylgja fullyrðingum. Það er ekki hægt að bjóða sæmilega skynsömu fólki upp á staðhæfingar um að við Íslendingar munum tapa fullveldi okkar við inngöngu í ESB án þess að koma með eitt einasta dæmi um land sem hefur misst fullveldi sitt við inngöngu. Það er heldur ekki bjóðandi mönnum að fullyrða að við Íslendingar munum tapa auðlindum okkar við inngöngu í ESB án þess að nefna eitt dæmi um land sem hefur orðið fyrir slíku.

Mér finnst skorturinn á rökum gegn ESB aðild endurspeglast átakanlega í ,,nei takk skiltunum” sem blasa víða við vegfarendum. Hugsaðu ekki, kynntu þér ekki málið, engin rök segðu aðeins nei takk.

Ég hef trú á íslenskri alþýðu að hún muni krefjast raka með og á móti og draga síðan ályktun sína af þeim málflutningi.

Guðmundur Hallgrímsson lyfjafr.

Stjórnarmaður í Evrópusamtökunum.