Þriðjungur ríkja Evrópusambandsins hefur lýst andstöðu við áform um að leiða í lög sambandsins reglur um að fyrir árið 2020 verði teknir upp kynjakvótar í stjórnum hlutafélaga sem skráð eru á markaði.

Viviane Reding, sem fer með dómsmál og mannréttindi innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og er helsti talsmaður hugmyndanna, segir í samtali við Euobserver að hún búist við því að “áhugaverð barátta” sé framundan innan framkvæmdastjórnarinnar og við ríkin níu sem hafa lýst opinberri andstöðu við áformin.
Unnið er að frumvarpi sem felur í sér þá reglu að hvort kyn eigi að minnsta kosti 40% fulltrúa í stjórnum opinberlega skráðra félaga fyrir árið 2020.

Hins vegar er gert ráð fyrir að einstökum ríkjum verði í sjálfsvald sett að taka ákvarðanir um viðurlög og sektir við brot á reglunum.

Eins og stendur eru konur innan við 14% stjórnarmanna í félögum í Evrópu. Reding segir að öll kerfi sem gert hafi ráð fyrir því að fyrirtækin sjálf lagi kynjahlutfallið hafi brugðist. Ljóst sé orðið að bindandi kvótar séu nauðsynlegir til þess að jafna kynjahlutföllin.

Nánast um leið og undirbúningur að gerð reglanna hófst innan Evrópusambandsins stigu níu aðildarríki fram, undir forystu Bretlands, og lýstu opinberlega yfir andstöðu sinni við frumkvæðið.

„Við áréttum að allar aðgerðir á þessu svipi ættu að vera á forræði einstakra ríkja. Þessvegna styðjum við ekki lögleiðingu bindandi reglna á vettvangi Evrópusambandsins um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja,” segir í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherra sem fara með vinnumarkaðsmál í Bretlandi, Hollandi, Búlgaríu, Tékklandi, Eistlandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Litháen og Möltu frá 14. september.

Reding hyggst hins vegar halda áfram undirbúningi að reglusetningunni og kippir sér ekki upp við yfirlýsinguna. “Þetta bréf hefur engin raunveruleg áhrif á málið,” segir hún.

Frakkar hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við frumkvæði hennar. Pierre Moscovici, fjármálaráðherra, og Najat Vallaud-Belkacem, jafnréttisráðherra Frakklands, hafa lýst yfir “eindregnum stuðningi” við tillögur Reding í yfirlýsingu þar sem þau hvetja framkvæmdastjórnina til þess að hraða vinnu við lögleiðingu hennar.

En eins og fyrr sagði er um þriðjungur framkvæmdastjórnarinnar andvígur málinu, þar á meðal konur á borð við Neelie Kroes, sem fer með málaflokkinn í ríkisstjórn Hollands. Í samtali um málið við Financial Times segist hún vera hlynnt auknum réttindum kvenna en að hún telji að ESB eigi ekki að þvinga reglur um þetta efni upp á aðildarríkin.

“Þetta verður áhugaverð barátta,” sagði Vivian Reding við blaðamenn í síðustu viku en hún kveðst bjartsýn á að sér takist að telja kolllegum sínum hughvarf. “Í stjórnmálum verða menn að skilja hvenær tíminn fyrir aðgerðir er runninn upp. Það er kominn tími til að taka upp kvennakvóta.”

Reding segist einnig sækja stuðning í sinni baráttu í þá staðreynd að Evrópuþingið frestaði nýlega að skipa enn einn karlinn í stjórn Seðlabanka Evrópu en þar sitja eingöngu karlar. Evrópuþingmenn hafa neitað að taka á dagskrá að staðfesta tilnefningu seðlabankastjóra Lúxemborgar, Yves Mersch,til þess að mótmæla því að aðildarríkin hafa enn ekki tilnefnt eina einustu komu til þess að taka sæti í stjórn Seðlabanka Evrópu.

“Við sjáum að alls staðar er hreyfing í sömu átt. Þarna fannst evrópuþingmönnum nóg komið,” segir Reding. Hins vegar er ekki talið að mótmæli þingmannanna komi í veg fyrir skipun Yves Mersch í embættið. “En í næsta skipti sem það losnar staða í stjórn Seðlabanka Evrópu er ég viss um að aðildarríkin munu ekki þora öðru en að tilnefna konu,” segir Reding.

Hún segir að hið sama muni eiga við á árinu 2014 þegar allar æðstu stöður Evrópusambandsins losna, þar á meðal formennskan. “Það verður útilokað að það verði eingöngu karlar í kjöri,” segir hún um væntanlega kosningu formanns framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á árinu 2014.