Í grein dagsins fjallar Sæmundur E. Þorsteinsson, fjarskiptafræðingur, um fullveldi, merkingu hugtaksins, mismunandi túlkun og notkun á hugtakinu fullveldi, og hverjir það eru í raun sem hafa fullveldi, og hvort það skerðist við inngöngu Íslands í ESB. Hér að neðan má lesa greinina.

Ein meginröksemd andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu er sú að þeir telja Íslendinga glata fullveldi sínu að nokkru eða öllu leyti. Þessu er oftast varpað fram án nokkurra útskýringa eða raka. Það er fróðlegt að velta fyrir sér merkingu orðsins „fullveldi“. Ef orðinu er flett upp í Íslenskri orðabók fæst eftirfarandi skýring:

„Sjálfstæði, það að hafa fullt vald yfir málum sínum.“

Í Íslensku alfræðiorðabókinni er nákvæmari skýring:

„Fullveldi, sjálfsforræði, sjálfstæði, óskoraður réttur ríkis til að fara með æðsta vald í landi sínu, óháð öðru en reglum alþjóðaréttar. Ísland varð fullvalda í konungssambandi við Danmörku með sambandslögunum 1918. Ýmis ríki á 20. öld hafa skert fullveldi sitt með milliríkjasamningum, t.d. hafa aðildarríki Evrópubandalagsins framselt hluta af fullveldi sínu í hendur yfirþjóðlegum stofnunum á vegum bandalagsins.“

Þegar fjallað er um fullveldi er gjarnan aðeins horft til heilla ríkja og frelsis þeirra til að fara sínu fram í heimalandinu og í samfélagi þjóðanna. Það er einmitt þetta samfélag með öðrum ríkjum sem hlýtur að skerða fullveldi hvers og eins. Það sama á við um einstaklingana sem tilheyra ríkjunum, þeir búa í samfélagi við marga aðra einstaklinga sem takmarkar sjálfsforræði (fullveldi) hvers og eins. Orðið fullveldi má alveg nota um einstaklingana eins og ríkin, „það að hafa fullt vald yfir málum sínum“.

Þeir menn sem vilja hafa fullveldi ríkja sinna sem mest vilja ekki endilega hámarka fullveldi þegnanna og reyndar fer þetta tvennt sjaldan saman.

Fullveldi þjóðar er lítils virði ef það felur aðeins í sér fullveldi valdhafa til að fara sínu fram gegn öðrum þjóðum eða eigin þegnum. Fullveldi einstaklinga er í raun það sem skiptir máli. Sovétríkin voru gott dæmi um fullvalda ríki þar sem fullveldið var þegnunum einskis virði, valdhafarnir fóru fram með ofbeldi bæði gegn þegnum sínum og öðrum ríkjum. Sagan er öll morandi í slíkum dæmum, svona hefur þetta nærri alltaf verið, alls staðar.  Ríki þar sem fullveldi einstaklinganna er sett í fyrirrúm eru algerar undantekningar en dæmi um slík ríki eru lýðræðisríki Vesturlanda. Ríki ESB eru slík dæmi. Þar hafa valdhafar takmarkað sitt fullveldi til þess að auka fullveldi þegna sinna, fullveldi þeirra til þess að búa, starfa og mennta sig hvar sem er innan ESB-svæðisins og jafnframt til þess að kaupa þær vörur og þjónustu sem þeir kjósa og þar sem þeir kjósa án afskipta yfirvalda.

Hér á landi vottar stundum fyrir því að fullveldi einstaklinganna sé skert með geðþóttaákvörðunum valdhafanna á hverjum tíma. Tilhögun á innflutningi landbúnaðarafurða er dæmi um þetta þar sem  stjórnvöld beita alls kyns bellibrögðum til þess að skikka þjóðina til að borða þeim þóknanlegar afurðir. Gjaldeyrishöftin eru annað dæmi um fullveldisskerðingu Íslendinga, þau setja á okkur átthagafjötra og takmarka athafnafrelsi okkar.

Aðild að Evrópusambandinu myndi auka fullveldi Íslendinga. Hún myndi tryggja þann ávinning sem við höfum þegar náð með EES-samningnum eins og frelsið til að búa, læra og vinna hvar sem við kjósum á EES-svæðinu. Hún myndi einnig stórauka fullveldi okkar við að velja það sem við kaupum og neytum, hvar við verslum og hvað við borgum. Auk þess er aðild eina raunhæfa leiðin til þess að losna við gjaldeyrishöftin.

Hluti þeirra sem nú hrópa hæst um að hætta beri viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu hreifst af þeirri hugmyndafræði sem Sovétríkin byggðust á. Skyldi andstaða þeirra við að þjóðin skeri úr um aðild í kosningum ekki byggjast á sömu hvötum? Eru ekki einmitt margir andstæðingar viðræðnanna þeir sem vilja hafa vald yfir öðrum um það hvar þeir búa, læra,vinna og hvað þeir borða? Frasinn „hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins“ er ekki boðlegur án útskýringa, en þær hafa ekki verið í boði. Hverjir eru hagsmunir Íslands? Eru það hagsmunir Íslendinga eða hagsmunir þeirra sem völdin hafa? Oft er þetta ekki sami hluturinn. Fullyrðingar um skerðingu fullveldis halda ekki vatni. Þvert á móti stóreykst fullveldi Íslendinga við inngöngu í Evrópusambandið. Á hinn bóginn minnkar að sama skapi fullveldi stjórnvalda til þess skerða fullveldi eigin þegna.