jonasolveig_litil

Jóna Sólveig Elínardóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, birtir grein í Fréttablaðinu í dag, 22. júlí 2014.

„Íslensk stjórnvöld skipuðu nýverið nefndir og hópa til að bæta „snemmgreiningu á EES-löggjöf“ svo ráðherrar og embættismenn geti beðið ESB, óformlega og vinsamlegast, að þróa ekki löggjöf sem gæti komið sér illa fyrir Ísland. Þetta er hin „eflda hagsmunagæsla á vettvangi EES“ sem íslensk stjórnvöld boða í dag. Stjórnvöld virðast ætla sér það sem hin EES-ríkin hafa viðurkennt að virki ekki. Meira að segja Norðmenn, með alla sína fjárhagslegu getu og mannafla, segja að tilraunir til efldrar hagsmunagæslu í Brussel hafi ekki gengið sem skyldi. Við neyðumst því til að sætta okkur við það að á meðan við erum EES-ríki þá höfum við ekki sambærilegt áhrifavald á evrópsk-íslenska löggjöf og aðildarríki ESB og stöndum þeim þar af leiðandi ekki jafnfætis.

„Efld hagsmunagæsla“ – orðin tóm?
Eins og sakir standa er Ísland ófært um að taka þátt í Evrópusamstarfi á jafningjagrundvelli við aðildarríki Evrópusambandsins. Þetta er óumflýjanleg staðreynd og afleiðing aukaaðildar Íslands að ESB. Allar ákvarðanir um EES-löggjöf eru nefnilega teknar af Evrópusambandinu en Íslendingar hafa hvorki tillögu- né atkvæðisrétt þar sem mikilvægustu ákvarðanirnar um þessa evrópsk-íslensku löggjöf eru teknar. Sem EES-ríki hefur Ísland þar af leiðandi ekki jafna aðkomu á við aðildarríki Evrópusambandsins að mótun löggjafar sem við erum skuldbundin til að fara eftir. Ísland framselur því mikil völd yfir innanríkismálum landsins til ESB án þess þó að fá ákvarðanatökuvald í staðinn, líkt og nágrannaþjóðir okkar í ESB hafa fengið. 

Evrópustefnan
Í nýrri Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera sýnilegt í Evrópusamstarfi og taka þátt í því á jafningjagrundvelli. Þetta er metnaðarfullt markmið og virðingarvert en aðferðirnar að settu marki eru ekki nægilega vel ígrundaðar. Á meðan Ísland tekur ekki þátt í ákvarðanatöku á vettvangi ESB, þá stöndum við því miður skör lægra en þjóðir Evrópusambandsins. Spurningin er hvort sé betra fyrir ríki eins og Ísland: Að halda áfram að framselja stóran hluta fullveldisins og fá ekkert ákvarðanatökuvald í staðinn, eða að taka sér ákvarðanatökuvald til jafns við nágrannaríki okkar í Evrópusambandinu og lágmarka þannig það fullveldisframsal sem nú þegar er orðið.“

Sjá grein Jónu Sólveigar á visir.is.