Þorvaldur Gylfason skrifar grein í Fréttablaðið í dag  um fullveldið og Evrópusambandið og bendir á að fullveldisrökin gegn aðild hafi holan hljóm í munni þeirra sem steyptu þjóðinni í skuldir. Margt er til í þessu hjá Þorvaldi.

En fullveldisrökin gegn aðild duga ekki.  Þvert á móti felst það beinlínis í fullveldi ríkis að geta framselt hluta valdsins til alþjóðlegra stofnana. Það krefst stjórnarskrárbreytingar, á borð við þær sem t.d. Danir og Norðmenn hafa nú þegar gert á sínum stjórnarskrám og heimila slíkt framsal. Við höfum ekki slíkt ákvæði í okkar stjórnarskrá, en höfum þó nú þegar framselt hluta ríkisvaldsins til alþjóðlegra stofnana með EES samningnum.  EES aðildin felur í sér meiri lýðræðishalla en aðild að Evrópusambandinu.

Í EES framseljum við vald og afsölum okkur möguleikum til að hafa áhrif á ákvarðanatökuferlið, en innan ESB tökum við fullan þátt í mótun ákvarðan frá upphafi. Þar er grundvallarmunur á. Þjóð sem vill standa undir nafni sem fullvalda þjóð, velur því fulla aðild umfram EES samninginn.