Laugardaginn 20. mars var Benedikt Jóhannesson á fundi sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum og flutti erindi sem hann nefndi Evrópusambandið og atvinnulífið. Í erindinu taldi hann að innganga í Evrópusambandið væri ekki bráðaaðgerð. Stjórnmálaflokkarnir ættu að taka höndum saman um nokkur brýn mál sem væru grundvöllur þess að Ísland kæmist út úr kreppunni sem fyrst. Evrópusambandsaðild væri hins vegar langtímamál sem menn ættu að leggja áherslu á að vanda sem best til, þannig að um hana næðust örugglega sem allra bestir samningar.
Meginatriðin yrðu eftirfarandi:

 • Sjávarútvegsmál
 • Landbúnaður
 • Fullveldi
 • Evran
 • Staða Íslands meðal þjóða

Hann sagðist í upphafi hafa fyrst og fremst hafa haft áhuga á aðild vegna evrunnar og þess efnahagslega stöðugleika sem hún getur veitt, ef þjóðir gangast undir þann aga sem henni fylgir. Í aðdraganda kreppunnar hafi hann hins vegar líka staðnæmst við það að Íslendingar væru orðnir einangraðir pólitískt. Þetta kom meðal annars fram í því að fáir vildu lána þjóðinni peninga í undanfara kreppunnar. Sérstaklega vakti það athygli að Bandaríkjamenn vildu ekki koma þar nærri. Þessi skoðun staðfestist svo eftir hrunið og ætti reyndar við enn í dag.

Meginhluti erindisins fjallaði um sjávarútvegsmál.
Meginatriðin væru:

 • Við höldum öllum réttindum á Íslandsmiðum
 • Reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggir það
 • Semja þarf um deili- og flökkustofna – en það þurfum við að gera hvort sem er

Erfiðir punktar í samningaviðræðunum:

 • Formleg ákvörðun aflamarks

Um hana yrðu Íslendingar að leggja áherslu á að svæðið í kringum Ísland yrði sjálfstætt fiskveiðistjórnunarsvæði. Um ákvörðun heildarmarks ríktu reglur sem væru skýrar og gagnsæjar og lögð yrði áhersla á vernd fiskistofna og sjálfbærar veiðar. Í umræðum kom fram að nauðsynlegt væri að hér væri sveigjanleiki þegar taka þyrfti ákvörðun með skömmum fyrirvara, til dæmis vegna loðnuveiða.

 • Samningar við þriðja aðila

Samningsstaða Íslendinga gagnvart Norðmönnum og Færeyingum myndi styrkjast þegar þeir væru með Evrópusambandið á bakvið sig.

 • Fjárfesting útlendinga í sjávarútvegi

Slík fjárfesting hefði verið leyfð til 1990 og ekki valdið vandræðum fram að því, en þar þyrftu menn að vera vel meðvitaðir um að þetta væri eina leið útlendinga inn í íslenskan sjávarútveg, þ.e. ef íslenskir útvegsmenn seldu sín fyrirtæki. Ef til þess kæmi að útlendingar keyptu íslensk fyrirtæki, þyrfti að gæta að því að þeir flyttu ekki veiðiheimildir annað. Það yrði gert með reglum sem Bretar hafa innleitt hjá sér um að eitt af eftirfarandi skilyrðum þurfi að vera uppfyllt:

 1. Meirihluta eigu Íslendinga
 2. Meirihluti skipshafnar íslenskur
 3. Afla landað á Íslandi

Þetta hefur dugað Bretum og verið viðurkennd regla.

Ofan á þetta væri eðlilegt væri að Íslendingar settu skilyrði um það í samningaviðræðum, að engar þjóðir fengju að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu ef ríkið styrkti sjávarútveginn.

Íslendingar yrðu langstærsta sjávarútvegsþjóðin.

 • Tvöfalt stærri en Spánverjar
 • Mikið litið til Íslendinga í Evrópusambandinu vegna árangurs við stjórnun
 • Hefðum um 30% aflans
 • Gætum líklega fengið kommisar sjávarútvegs

Í samræmi við hefðir myndu Íslendingar hafa mikið að segja á þessu sviði þar sem þeir hefðu meginhagsmuna að gæta. Engin dæmi væru um að Evrópusambandið hefði komið inn í eitthvert land til þess að ræna það auðlindum sínum.

Meginmarkmið í samningunum ættu að vera:

 • Ísland yrði sérstakt stjórnunarsvæði þar sem sveigjanleiki væri til skjótra viðbragða þar sem það á við
 • Gagnsæjar kvótareglur þar sem bannað væri að úthluta kvóta umfram regluna
 • Skýrar reglur um að þjóðir sem styrkja sjávarútveg fengju aldrei að fjárfesta hér
 • Lækka tolla (væntanlega sjálfvirkt)
 • Árétta í aðildarsamningi regluna um hlutfallslegan stöðugleika

Í umræðum sem voru líflegar og málefnalegar komu fram ýmis sjónarmið. Til dæmis var um það spurt hvort í því fælist ekki mótsögn að erlendar þjóðir fengju engan rétt til veiða við inngöngu Íslands í Evrópusambandið, en svo væru taldar upp ýmsar reglur til þess að koma í veg fyrir að þær fengju réttinn. Benedikt kvað svo ekki vera. Hér væri í raun um varnagla að ræða, ef svo færi að útlendingar fengju rétt til þess að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Þá væri mögulegt að íslenskir útgerðarmenn hleyptu erlendum aðilum að auðlindinni með því að selja þeim fyrirtæki sín. Varnaglarnir væru til þess að tryggja að slík sala leiddi ekki til þess að Íslendingar nytu afrakstursins.

Spurt var hvað það væri sem Evrópubúar vildu sækja til Íslands. Það hlytu að vera auðlindirnar, hvað sem hver segði. Benedikt svaraði að Íslendingar hefðu sótt um aðild að Evrópusambandinu en ekki öfugt. Hins vegar væri það bara í sjávarútvegi sem reglur myndu breytast, vatnsorka og jarðvarmi myndi lúta sömu reglum og nú.

Spurt var hve marga þingmenn Íslendingar fengju á Evrópuþinginu og hvort þjóðin yrði ekki augljóslega valdalaus. Benedikt taldi að þeir yrðu 5-6 eða rætt tæplega prósent. Íslendingar yrðu að ákveða til hvers þeir vildu ganga í Evrópusambandið. Ætluðu þeir að ná völdum í Evrópu, eða ganga í samtök þjóða sem þeir ættu samleið með? Reynslan væri sú að þjóðir hefðu mest áhrif á þau mál sem skiptu þær meginmáli en skiptu sér minna af því sem væri þeim fjarri. Sama gilti reyndar um önnur samtök sem Íslendingar væru í t.d. NATO. Engum dytti í hug að Íslendingar gætu fengið NATO til þess að lýsa yfir stríði við einhvern jafnvel þó að svo ólíklega vildi til að þjóðin vildi það. Íslendingar hefðu gengið í NATO vegna þess að þeir hefðu viljað leggja sitt af mörkum til þess að vernda frelsi og frið í Vestur-Evrópu. Aðild að Evrópusambandinu væri sama eðlis, bandalag fullvalda vinaþjóða.

Um það var spurt hvort og þá hvernig Íslendingar gætu sagt sig úr Evrópusambandinu ef þeir vildu það síðar. Benedikt benti á að Írar hefðu sérstaklega hnykkt á því þegar þeir samþykktu Lissabon-sáttmálann að þeir gætu sagt sig úr sambandinu. Það hefði verið öðrum að meinalausu því að sá réttur væri hvort sem er tryggður. Hins vegar væri Benedikt sjálfur meira að hugsa um það núna hvernig Ísland kæmist inn í Evrópusambandið en út úr því.

Skiptar skoðanir voru um það hvort hætta ætti við umsóknina. Sumir töldu það skynsamlegast en aðrir að best væri að ljúka ferlinu, úr því sem komið væri. Benedikt taldi að þjóðin ætti að sameinast um að ná sem allra bestum samningum. Það væri allra hagur. Svo þyrfti að uppfræða þjóðina um eðli samninganna. Aðeins þannig væri tryggt að hún gæti tekið yfirvegaða ákvörðun um hvort segja bæri já eða nei. Benedikt sagðist treysta þjóðinni fullkomlega til þess að taka yfirvegaða ákvörðun þegar það að kæmi.